23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1923

Sveinn Ólafsson:

Mjer hefir yfirleitt komið betur saman við háttv. fjvn. að þessu sinni en undanfarið, þó að ekki sje jeg henni sammála í öllu nje geti fylgt öllum brtt. hennar. En jeg met viðleitni hennar að færa saman kvíarnar og minka útgjöldin, enda er öllum ljóst, að eina færa leiðin út úr fjárhagsörðugleikum þjóðarinnar er sú, að spara sem kostur er.

Það er líka í viðurkenningarskyni við þessa viðleitni nefndarinnar, að jeg kem fram með brtt. á þskj. 131 við 15. gr., enda verð jeg að álíta, að þar hafi háttv. fjvn. sjest yfir, og vildi jeg því bjarga þessu minnisleysi hennar. Jeg legg til, og held að það sje í samræmi við aðra sparnaðarviðleitni nefndarinnar, að niður falli liðurinn 19 b við 15. gr., sem sje styrkurinn til þýðingar á seinni hluta Goethes Faust. Jeg held að með þessu geri jeg háttv. frsm. (B.J.) meiri greiða en ógreiða og að meira samræmi verði í fjárlögunum en ella.

Nú er lýðum ljóst, að fella verður niður margar nytjafjárveitingar, eins og t. d. símana, vegna þess hversu fjárhag landsins er komið. Þessi liður hefir líka lengi verið þyrnir í augum manna og myndi ekki síður verða það nú en áður enda horfir það undarlega við almenningi að láta þennan þarflausa styrk standa, þegar svo margt er niður skorið, sem áður þótti nauðsynlegt að styrkja.

Um þetta ætti ekki að þurfa að fjölyrða, en þó verð jeg að geta þess, að það munar nærri 10 þús. króna, sem búið er að borga fyrir þýðingu og prentun á fyrri hluta þessa skáldrits, og verður ekki annað sagt en að það sje sæmilega launað starf.

Jeg ætla ekki að fella dóm um verk þetta; bæði hefi jeg gert það áður og svo finst mjer það tæplega viðeigandi. Þó vil jeg segja það, að jeg hefi aldrei talið skáldrit þetta stóran vinning fyrir þjóðina nje gróða bókmentum okkar. Efni ritsins er aðeins fremur klúr og lítilfjörleg þjóðsaga, sem í engu stendur framar sögunum af Sæmundi fróða og fleirum álíka, er við könnumst við, en búið í skáldlegan og íþróttalegan búning af Goethe, er ekki nýtur sín þó nándarnærri í hinni nýju íslensku þýðingu. Er sá bragðmunur á frumritinu og þýðingunni ekki ólíkur því, er okkur Íslendingum finst, er við lesum Hávamál eða Sólarljóð á dönsku.

Skal jeg svo ekki fleira um þetta mæla. En vilji menn fella annað niður, sem að allra dómi er nauðsynlegra, þá geta þeir ekki staðið sig við að greiða atkvæði á móti þessari brtt. minni.

Þá kem jeg að annari brtt. minni á sama þskj., við 15. gr. 20. Í frv. stjórnarinnar er lagt til, að nafngreindum manni verði veittur 7 þús. kr. styrkur til samningar orðabókarinnar margkunnu. Þessi styrkur finst mjer óþarflega hár og legg því til, að þessum sama manni, sem nú er hniginn að aldri og lítið getur að orðabókarstarfinu unnið, verði framvegis veittur sæmilegur styrkur, 3500 kr., en að öðrum manni, Þórbergi Þórðarsyni, verði líka veittur nokkur styrkur til þess að safna orðum úr alþýðumáli, og hygg jeg, að hann muni ekki óþarfari verða orðabókinni en hinn (þ.e. Jóhannes Lynge), sem talinn er aðalmaðurinn.

Þó að jeg og fleiri hafi lítinn árangur sjeð af þessu orðabókarstarfi, þá býst jeg við, að vaninn sje þegar búinn að helga þetta, svo að ekki þyki gerlegt að fella styrkinn algerlega niður og færa manninn til 18. gr. með eftirlaunum, en þessi brtt. mín ætti að vera í samræmi við sparsemdarviðleitni háttv. þdm., og vænti jeg því, að þeir ljái henni fylgi sitt.

Jeg skal geta þess, að framan af, á meðan styrkur þessi var margfalt lægri, þá fylgdu honum skilyrði um eitthvað ákveðið, sem vinna átti á ári. Nú er þetta fallið niður fyrir löngu og fjárveiting þessi orðin að hreinum og beinum bitling, sem gagnslítið er snarað eins og í sjóinn væri. Jeg get þess til, að eitthvað hafi unnist á þessu sviði en að það sje svo mikils virði, að árlega sje rjett að greiða eins mikið fyrir það og nú hefir verið gert um hríð, því neita jeg fult og fast. Jeg hygg að flestir okkar verði komnir undir græna torfu áður en orðabókin kemur út, eftir þeim vinnubrögðum að dæma sem hún hefir orðið að sæta síðustu árin.

Jeg verð að lokum að segja hið sama um þessa brtt. mína og hina á undan, að jeg vona, að hún sje í samræmi við vilja háttv. þdm. Vænti jeg því, að þessi upphaflega fjárveiting verði ekki látin standa eins og grýla, þegar alt stórt og smátt, sem miðar þó til meiri nytja, verður að fella niður. Jeg þykist því ekki þurfa að segja fleira till. til stuðnings, enda tel jeg mig hafa fært gildar ástæður fyrir því, hvers vegna jeg hefi borið hana fram.