11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (1182)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi áður látið mjer þau orð um munn fara, að frv. þetta sje andvana í heiminn borið, og jeg hefi styrkst í þeirri trú við þær umr., sem fram hafa farið um það. Það er ekki ætlun mín að fara nú að ræða um fræðslumálafyrirkomulagið yfirleitt, enda hefir það nú verið gert allítarlega. En mjer hefir dottið í hug, að ekki mundi vera úr vegi að reyna að gera sjer grein fyrir því, hvernig þetta mundi verða í framkvæmdinni, ef það yrði að lögum.

Jeg lít svo á, að óviðeigandi sje að koma með slíkt mál sem þetta nú, þar sem vitanlegt er, að Alþingi hefir þegar gert ráðstafanir til þess, að þetta mál verði rannsakað til hlítar. Þar sem þeirri rannsókn er enn þá ekki að fulllokið, getur ekki komið til nokkurra mála, að hv. þm. geti greitt þessu frv. atkvæði sitt, eins og það nú liggur fyrir. Slíkt væri að móðga bæði þing og stjórn, og svo þá menn, sem falið hefir verið að rannsaka, hvort ástæða sje til að breyta núverandi fræðslufyrirkomulagi. Jeg tel því sjálfsagt að víkja þessu frv. þegar til hliðar, og verður þá sú leiðin best að samþ. þá dagskrá, sem nú liggur hjer fyrir.

Það hefir þegar verið gerð grein fyrir því, að þetta sje að eins skollaleikur, því hjer geti ekki verið um neinn sparnað að ræða. Það er ekki einu sinni að ræða hjer um sparnað á pappírnum, hvað þá í reyndinni. Það er auðsjáanlegt, að ef þetta frv. verður samþykt, þá koma þessi útgjöld, sem menn látast hjer ætla að spara ríkissjóðnum, mjög þungt niður á sveitar- og bæjarfjelögum landsins. —

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) gat þess í ræðu sinni, að hjer væri að ræða um sparnað, sem næmi ¼ milj. kr. Jeg hafði þá í bili ekki athugað þetta svo nákvæmlega, að jeg vildi mótmæla því þegar í stað, en heldur ljet það undarlega í eyrum mínum. Enda sje jeg nú, við nánari athugun, að þessi áætlun er algerlega í lausu lofti bygð. — Þessi hv. þm. (Þór. J.) sagði, að litlu munaði í sveitunum, þótt þessu væri breytt þannig, því þær hefðu lítils notið af því fje, sem veitt hefir verið til barnafræðslunnar. Sje þetta rjett hjá hv. þm. (Þór. J.), þá hlyti þetta að koma þyngst niður á kaupstöðunum.

Ýmislegt fleira mælir fastlega á móti því, að frv. þetta nái fram að ganga. Það mundi meðal annars koma mjög hart niður á fjölda manna, sem með ærnum kostnaði hafa gert barnakenslu að lífsstarfi sínu. Hefir ríkið einmitt með löggjöfinni ýtt undir þessa menn að búa sig undir starfann. Virðist því heldur ósanngjarnt að kippa nú að sjer hendinni og draga úr því, að þessir menn hafi not af þeirri fyrirhöfn og fje, sem þeir hafa varið til þessa. Kemur þetta og heldur í baga við þá stefnu, sem nú hefir ríkt, að landið leggi fram fje til kennaraskólans, til að efla hann og bæta. Það er því mjög undarlegt, að samtímis skuli slíkt frv. sem þetta koma fram hjer á þingi.

Það er gert ráð fyrir því í athugasemdunum við frv., að ef þetta nái fram að ganga, þá skuli því fje, sem sparast, varið til aukinnar unglingafræðslu. Það má deila um það, hvort eigi að sitja í fyrirrúmi, ef ríkið hefir ekki efni á hvorutveggja, að styrkja unglingaskólana á kostnað barnaskólanna. Jeg vil álíta, að það beri fyrst og fremst að sjá um, að barnaskólarnir sjeu reknir með alúð og dugnaði. Það verður hjer sem oftar áríðandi, „að undirstaðan sje rjett fundin“, og auk þess er það vitanlegt, að mikill fjöldi þjóðarinnar verður að láta sjer nægja þessa undirstöðu, sem menn hljóta í barnaskólunum. Á síðustu tímum hefir því verið að því stefnt, að fræðslan á þessu aldursstigi yrði sem allra best. Það er líka auðsætt, að hægara verður fyrir þá menn, sem komnir eru á þroskastig, að afla sjer framhaldsfræðslu heldur en fyrir fátæka heimilisfeður að sjá börnum sínum fyrir þeirri fræðslu, sem til er ætlast samkvæmt þessu frv. — Fjöldi heimila hjer á landi eru svo stödd, að þau eiga engar leiðir til þessa nema þær, sem opnaðar voru með lögum þeim, sem nú er verið að hugsa um að gera að engu.

Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi komið fram með, get jeg ekki fallist á þetta frv., og er sama, af hve mikilli mælsku það er varið. Jeg vona fastlega, að það fari ekki í gegn um þessa hv. deild, þó vera kynni að það lifði af þessa umr. Jeg vil þó leggja mitt atkv. til þess, að það fái ekki að fara lengra.