15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (1186)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg gat þess í framsögu þessa máls, að nefndin lítur á það sem höfuðatriði þessa frv. að breyta fræðslukerfi landsins. Vitanlega duldist henni eigi, að hún gat það ekki af fullveldi sínu, þar sem svo eru margir fróðir menn hjer á þingbekkjum, en hún vildi hreyfa málinu, og helst fá fram þessa frestun á framkvæmd núgildandi fræðslulaga. Vakti það fyrir henni, að frestunin gæti verið fram yfir næstu kosningar, og gæti þá nýtt þing tekið ákvörðun um málið og ráðið fram úr því, hvort kerfið skyldi hafa. Eru þá annars vegar sömu kröfur og nú til staðfestingar, en ekki nema hálfur kostnaður á við það, sem nú er, og þó aukið mikilli fræðslu ofan við í unglingaskólum. Hins vegar yrði það kerfi, sem nú er, breytt eða óbreytt, með einhverri viðbót eða án. Þess vegna ber nefndin fram brtt. við 1. gr. á þskj. 97, í þá átt, að þessi frestur sje settur til fardaga 1924. Þessi frestur ætti að vera nægur til þess, að landsmenn vöknuðu og athuguðu málið og gæfu hinum nýkjörnu fulltrúum til Alþingis 1924, hverjir sem þeir verða, eitthvert veganesti. Því að efalaust mundi málið þá rætt á þingmálafundum og frambjóðendur verða að láta uppi skoðun sína á því.

Um 2. gr. vil jeg geta þess, að það væri nóg hegning á þann, sem vanrækti fræðslu barns síns, ef prestur neitar að staðfesta barnið. Til sektar á þá fyrst að koma, er maðurinn þverskallast og vill ekki láta staðfesta barnið, og ætlar þannig að skjóta sjer undan fræðsluskyldunni.

Jeg heyrði útundan mjer við 1. umr., að mönnum þótti sektin há. Það er hún nú ekki, því að sektin má þó ekki vera minni en sem svarar þeim kostnaði, er flyti af uppfræðingu barnsins. Annars væri hagur fyrir þrjótinn að greiða sektina.

Í sambandi við 3. gr. vil jeg geta þess, að nefndin telur eins rjett, og jafnvel fult eins gott, fyrir prestinn að stefna börnunum saman á hentuga staði síðari hluta vetrar og sjá, hvernig kent hefir verið, í stað reglulegrar húsvitjunar.

Við 5. gr. ber nefndin fram vatill., vegna þess, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) benti á við 1. umr. Virtist nefndinni rjett að gefa fjölmennum kaupstöðum og kauptúnum heimild til þess að fyrirskipa skólaskyldu með reglugerð. Þetta slær þá varnagla við því, sem hv. þm. (J. Þ.) var hræddur við.

Jeg býst nú við, að þetta mál sje orðið svo þrautrætt, að ekki þurfi að fjölyrða um það. Þó get jeg ekki stilt mig um að benda á það, að ummæli hafa þegar komið fram um þetta mál, sem vel má veita athygli. Þar á meðal grein í „Vísi“ eftir prófastinn síra Ólaf Ólafsson frá Hjarðarholti. Hann var búinn að vera prestur lengi áður en fræðslulögin voru sett, og hafði því tækifæri til að bera saman. Skoðanir hans koma heim við skoðanir fjvn., svo að ekki er víst, að nefndin sje eins fylgissnauð í landinu og hv. andstæðingar hennar halda. Prófastur þessi, sem jeg nefndi, hefir sjálfur fengist mikið við kenslu, eins og kunnugt er, en auk þess veit jeg til þess, að annar prestur, sem líka er talinn ágætur fræðari, hefir ritað grein, sem nú mun vera í prentun, og fer hún í sömu átt.

Jeg vil nú fela hv. deild þetta frv., og vona, að hún samþykki það. Ef hún ber gæfu til þess, tel jeg vel farið.

Um. brtt. hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) er það að segja, að þær eru alveg nýtt frv., á alt öðrum grundvelli, og getur fjvn. ekki mælt með þeim. Sumt í þeim er, meira að segja, þess eðlis, sem nefndin vildi helst varast.