15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (1190)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal ekki þreyta hv. þm. lengi. En þess vil jeg láta getið, að jeg mun ekki og kom ekki til hugar að koma fram með þær mótbárur, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) var að búast við, að brtt. hans sættu.

Fjvn. lætur brtt. hans afskiftalausar, því að þær koma hennar frv. ekkert við, heldur eru annað frv., sem koma ekkert nálægt því, sem er höfuðatriði hjá nefndinni, frestuninni, svo að unt verði fyrir þjóðina að átta sig á málinu til næstu kosninga og ráða því, hvort þetta kerfi, sem nú er, á að ríkja áfram eða ekki.

Allir nefndarmenn eru á því að skifta ætti um kerfi. Hefi jeg nú látið prenta framsöguræðu mína, svo að menn geti ekki lengur efast um það, að jeg hafi talað í fullu umboði nefndarinnar. — Annars undrar mig það, að menn skuli hafa leyft sjer að tala um tvískinnung hjá nefndinni. Hún hefir altaf verið á einu máli. Annars er enginn harmagrátur hjá nefndinni yfir því, þó að alþýðumentunin yrði eigi bygð á neinum sjerstökum lögum, enda er heldur ekki nú um neina menning að ræða. — Menn eru ver mentir nú en var áður; lögin hafa verið menningarspillir, sökum þess, að kerfið er skakt. Kennararnir hafa verið bestu menn, en þeim hefir verið það ómáttigt að troða í börnin á þessum aldri, með 6–8 vikna kenslu, því, sem lögin heimta.

Ekkert þýðir að vísa þessu máli til stjórnarinnar, því að hún hefir ekkert vit á því. Hæstv. forsrh. (S. E.) sagðist raunar hafa meira vit á þessu en þm. Dala., en þm. Dala. getur tekið hann á knje sjer og kent honum að minsta kosti það, að hann beri ekkert skynbragð á þetta mál.