15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (1191)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Þorsteinn Jónsson:

Hv. þm. þurfa ekki að vera lengur í vafa um „prógram“-mál við næstu kosningar. Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að tilgangurinn með frv. væri sá, að þjóðin berðist um það við næstu kosningar, hvora stefnuna hún kysi heldur. Hann hefir einnig margtekið það fram, að þessi mál sjeu órannsökuð, svo að þjóðin verði að kynna sjer þau.

Við 1. umr. sýndi jeg fram á, hvað mikill hefði verið undirbúningur fræðslulaganna frá 1907. Og milliþinganefndin, sem hefir starfað undanfarandi ár, hefir sent út fyrirspurnir til allra þeirra manna, er fást við kenslu í landinu, og til allra skólanefnda. Hafa þær fyrirspurnir verið um álit á skólaskyldu og hvaða fyrirkomulag menn kysu helst. Þessum fyrirspurnum var svarað af 210 mönnum. Skólaskyldu á bernskualdri álitu allir rjettmæta, nema einir 4. Annars má sjá það á svörunum, að nær því allir vilja byggja á því fyrirkomulagi, sem er, en margir vilja auka kennaramentun, breyta kosningu skólanefnda og leggja meiri rækt við að bæta barnaskólana en áður hefir verið gert.

Jeg álít, að miklu meira sje að byggja á skoðun og umsögn þessara manna en á fundum, sem haldnir eru rjett fyrir kosningar, þar sem þingmannaefnin oft reyna að æsa menn upp og hafa áhrif á skoðanir þeirra. Auk þess er venjulega ekki nema lítill þorri kjósenda á slíkum fundum, og ekki ávalt þeir, sem mest skyn bera á þessi mál. Jeg trúi því tæplega, að háttv. þm. Dala. (B. J.) haldi því fram í alvöru, að skera eigi úr þessum málum á kosningafundum. Jeg hygg, að til þess þurfi rólegar rannsóknir þeirra manna, sem bestar ástæður og föng hafa til þess. Mjer finst það vera móðgun við þjóðfjelagið, ef þingið fer nú að hringla með þetta mál, eftir að þjóðin hefir látið í ljós álit sitt í margvíslegum svörum, sem milliþinganefndinni hafa borist.

Það mætti nú margt segja um hinar einstöku greinar þessa frv., sem hjer ræðir um, en jeg skal þó ekki fara mikið út í þá sálma, því að frv. er alt svo lítt hugsað, að jeg veit, að hv. þm. Dala. (B. J.) sjer það sjálfur, að á því sjeu svo miklar glompur, að það sje ógerningur fyrir þingið að samþykkja það eins og það er úr garði gert, þótt þingið annars vildi ganga inn á stefnu þá, sem í því felst.

Það hefir verið svo hingað til, að kennararnir hafa verið settir í stöðurnar af stjórnarráðinu. En í þessu frv. er ekkert tekið fram um það, hvort veitingar- eða setningarvaldið á að vera hjá stjórnarráðinu eða ekki. Mjer hefir að vísu skilist á hv. þm. Dala. (B. J.) í „prívat“-samtali, að það ætti að vera áfram hjá stjórnarráðinu, en um slíkt getur ekki í frv. Annað atriði er um lífeyrissjóð barnakennara. Ef þeim lögum, sem nú eru um barnafræðslu og laun og skipun barnakennara yrði frestað, þá er ekkert vit að halda lögunum um lífeyrissjóð barnakennara. Það er engin meining í því, að þeir peningar, sem kennararnir hafa látið í þann sjóð, sjeu látnir vera þar kyrrir, eftir að þeir hafa verið flæmdir úr stöðunum, heldur á að greiða þeim þá aftur.

Ein af höfuðröksemdum háttv. þm. Dala. (B J.) var það, að 2 prestar væru á skoðun fjvn. í þessu máli. Jeg álít nú ekki mikinn stuðning í þessu. Tveir prestar eru á sömu skoðun og háttv. fjvn., en allir aðrir menn, sem best hafa vit á þessum málum, eru móti nefndinni; hvorir munu betur vita? Ef prestar þessa lands ættu að taka að sjer umsjón með barnafræðslunni, þá yrði að minsta kosti að fjölga þeim um helming. Það sjer hver heilvita maður, að þegar prestaköllin eru svo stór og umfangsmikil og þau eru nú, þá er engin von til þess, að prestarnir geti sint hinu nýja starfi, svo í lagi sje, nema þeim verði fjölgað um helming eða meira. Þá fyrst væri hægt að gera sjer von um einhvern árangur af fræðslustarfi þeirra í sveitum, en annars væri það ógerningur.

Sú var tíðin, að prestum var falið að sjá um og líta eftir, að börn í sóknum þeirra væru vel læs og skrifandi. Það mun hafa verið eftir lögum frá 1880. En nú vil jeg spyrja: Þekkir nokkur hv. þm. dæmi þess, að prestur hafi vísað barni frá fermingu, þó að það væri lítt lesandi og illa skrifandi, ef það kunni einföldustu undirstöðuatriði kristinna fræða, sem heimtuð eru til fermingar? Jeg held við þekkjum varla dæmi til þess.

Hv. þm. Dala. (B. J.) tók það fram, að núverandi barnafræðslufyrirkomulag væri stór menningarspillir, vegna þess, að kennararnir gætu ekki troðið inn í börnin á þessum stutta tíma öllu því, sem heimtað væri í fræðslulögunum. Mjer þykir nú þessi hv. þm. (B. J.) hafa ærið kynlegar hugmyndir um barnafræðslu, ef hann álítur það aðalmarkmið hennar að „troða“ sem mestu inn í börnin. Á þeim grundvelli get jeg ekki rökrætt við hann. Jeg er þeirrar skoðunar, að ekki sje hægt að búast við því, að börnin taki við miklum fróðleik á þessum aldri, heldur sje þetta undirstöðu- og undirbúningskensla til að læra meira. Nú vil jeg spyrja hv. þm. Dala. (B. J.), og þá aðra, sem halda því fram, að menningarástandið hafi verið betra á undan fræðslulögunum, á hverju þetta sje bygt. Hvort það hafi verið fleiri skrifandi áður en nú, eða betur skrifandi. Jeg hygg, að því geti enginn svarað játandi, hvort sem hann byggir á skýrslum eða tali gamalla manna. Við höfum einhverjir heyrt mæður okkar og ömmur tala um það, að þær hafi ekki átt kost á að læra að skrifa sæmilega, og hafa þær harmað það í elli sinni. En nú heyrum við engar slíkar umkvartanir, og þegar börn vor eru orðin 8–10 ára, eru þau farin að geta skrifað okkur brjef.

Þá er önnur spurning: Voru menn betur lesandi fyr en nú? Jeg skal í því sambandi geta þess, að það er einn skóli, sem hefir lagst niður, sem sje sá, að lesið var upphátt í sveitunum á kvöldvökunum. En það er ekki barnaskólunum að kenna, að hann hefir lagst niður. Jeg tel það mjög miður farið, að þessi gamli, góði siður skuli hafa lagst niður, og ef slíkt væri barnaskólunum að kenna, þá væri þeirra sök ekki lítil. En því er ekki til að dreifa. Aðalorsökin til þess er sú, að nú er mikið fólksfærra í sveitunum en áður, og baðstofuvinna, sem áður var mikil á kvöldvökunum í sveitum, er nú að mestu lögð niður. Þarna var óneitanlega góður skóli, og því var það, að svo margir voru vel lesandi í gamla daga. En þegar nú þessi síður er niður lagður, og þar á ofan ætti svo að leggja barnaskólana niður, þá er jeg vondaufur um, að menn verði eins vel lesandi og áður. Það er næsta undarlegt, að margir hv. þm. skuli halda, að barnaskólarnir losi heimilin undan allri fræðsluskyldu. En það hvílir jafnmikil skylda á heimilunum eftir sem áður; skólarnir eru þeim að eins til hjálpar. Mjer er líka kunnugt um það, að það er álitið víða í sveitum, að skólafræðslan hafi aukið heimilisfræðsluna.

Jeg hefi nú sýnt, að fræðslan hefir síst verið betri í þessum tveimur námsgreinum, sem jeg hefi nú minst á; en þá er að líta á hinar aðrar námsgreinar. En um þær er það að segja, að í þeim áttu börn áður fyr engan kost á að fá nokkra fræðslu, nema þá á einstaka heimilum, svo sem hjá prestum og öðrum mentamönnum. Svo um það þarf alls ekki að ræða.

Þá skal jeg snúa mjer að hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Um hann má segja, að hann sje sjálfum sjer samkvæmur, því að hann hjelt sömu skoðun fram 1919 og nú. Eftir brtt. hans er um enga stefnubreytingu í fræðslumálunum að ræða, og er hann að því leyti ólíkur fjvn. Till. hans ganga mest út á að draga úr gjaldskyldu ríkissjóðs til barnafræðslunnar og koma henni á sveitar- og bæjarsjóði. Það mætti nú ef til vill segja, að sama væri, úr hvorum sjóðnum tekið væri, því að sömu mennirnir borga í þá; en svo er þó ekki. Þegar almenn skólaskylda er, þá borga hinir efnuðu meira til fræðslunnar en þeir fátæku, því að þeir gjalda meira til hins opinbera. Þegar svo landssjóðsstyrkurinn skiftist milli fræðsluhjeraðanna, kemur hann hinum illa stæðu og fátæku hjeruðum að meira gagni en hinuin efnaðri; ljettir meira undir með þeim. Jeg tók fram við 1. umr. þessa máls þá hlið, sem að fátæklingum snýr, og get tekið það fram enn, að þegar allri skólaskyldu er ljett af, þá geta hinir efnaðri menn látið kenna börnum sínum, þó að það verði dýrara en áður, en fátæklingarnir geta það ekki hjálparlaust. Alþingi sýnir það með atkvgr. í þessu máli, hvort það vill taka upp þá stefnu að ljetta undir fræðslu hinna máttarminni í þjóðfjelaginu, eða láta gáfuð og efnileg börn gjalda fátæktar foreldra sinna.

Mjer virðist brtt. hv. þm. S.-Þ. (Ing. B.) stefna í sömu átt og ein grein í frv. stjórnarinnar. Þar er annað orðalag, en enginn skoðanamunur. Jeg álít, að það sje í raun og veru rjett, að hjeruðin, sem telja sjer það fært að taka fræðsluna í sínar hendur, fái að gera það, en verði svo látin sanna með skylduprófum, að þeim hafi ekki mistekist það.

Jeg man svo ekki eftir fleiru, sem jeg þarf að svara í svipinn.