15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1192)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (S. E.):

Hv. þm. Dala. (B. J.) fullyrti nú í síðustu ræðu sinni, að hann talaði í umboði allrar nefndarinnar, og sje jeg ekki ástæðu til að efa það. Það hefir mikið verið talað um sparnað í sambandi við þetta frv. en jeg vil halda því fast fram, að hjer geti ekki verið um nokkum sparnað að ræða. Það sjest best á athugasemdunum, sem fylgja frv., því þar er tekið fram, að til þess sje ætlast, að allir þeir, sem stöðu missa samkvæmt því, fái fulla uppbót, annaðhvort með nýjum stöðum eða bættum tekjum. Sami hv. þm. (B. J.) gerði litið úr viti stjórnarinnar á fræðslumálum. Mjer kom það nú ekki á óvart, því að það er ekki nýtt, að hann þykist einn hafa vit á öllu því, er að mentamálum lýtur; því hefir hann oft hampað hjer í þessari hv. deild. Ekki veit jeg, hver rök liggja til þessa, en tel þó líklegt, að það sje vegna þess, að hann hefir aldrei gengið í barnaskóla sjálfur, og því ekki fengið undirstöðuatriðin barin inn í sig.

Þá, sem halda því fram, að mentunin hafi verið betri áður en nú, vil jeg minna á, að það var oft miklum örðugleikum bundið í gamla daga að fá oddvita og hreppstjóra í sveitum, því að menn voru ekki færir til þess. En nú er mjer kunnugt um það, frá því jeg var sýslumaður, að nú er úr miklum fjölda að velja til slíkra starfa. Jeg álít, að undir núverandi fræðslufyrirkomulagi hafi menningin tekið stórstígum framförum, og að stórt skref væri stigið aftur á bak, ef við hyrfum nú frá því og breyttum því á þann veg, sem hjer er um að ræða.