15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (1193)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Kristjánsson:

Þetta frv. var mikið rætt við 1. umr., og sje jeg ekki þörf á að þessu sinni að auka þar miklu við. Jeg mun því ekki tala um málið alment eða fyrirkomulag fræðslumálanna. En jeg get ekki látið ómótmælt nokkrum ummælum háttv. þm. Dala. (B. J.). Jeg veit ekki, hvort hann hjelt því fram í alvöru, að núverandi fræðslufyrirkomulag væri stórt spor, sem stigið hefði verið aftur á bak. — Þetta getur naumast verið í alvöru talað, en ef nokkur skyldi verða til þess að leggja nokkuð upp úr þessum orðum, þá vil jeg benda á mikinn fjölda af gömlu fólki, sem kvartar sáran undan því, að hafa ekki fengið í æsku einföldustu og nauðsynlegustu undirstöðufræðslu. Fólk þurfti að vera að stelast til að reyna að afla sjer með einhverju móti lítilsháttar þekkingar, jafnvel þótt það mætti heita óframkvæmanlegt, eins og þá var ástatt. Þetta ástand, sem áður var, er mörgum enn svo í minni, að það má heita furðu djarft að telja núverandi fræðslufyrirkomulagið spor aftur á bak.

Jeg vil svo snúa mjer að brtt. þeim, sem fram eru komnar, og skýra afstöðu mína til þeirra. — Brtt. á þskj. 97 er ómerkileg tilraun nefndarinnar til þess að bæta eitthvað úr fljótfærni sinni, en ekki hefir þó úr því orðið annað en kák eitt, og get jeg því ekki aðhylst hana. Þetta hefir engan sparnað í för með sjer og bætir ekki málið að neinu leyti. Jeg mun því greiða atkv. á móti tillögunni.

Þá er brtt. á þskj. 88, frá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), og eru þær eins og við er að búast, svo úr garði gerðar, að um þær má ræða. Þær eru óneitanlega bót frá frv., og gæti margur hugsað sem svo, að betri sje hálfur skaði en allur. Þessar till. eru að vísu spor aftur á bak frá því, sem nú er, en þó bera þær svo af frv., að mjer þykir rjett að greiða þeim atkv. við þessa umr. Ef svo slysalega vill til, að frv. eigi eftir að komast í gegnum deildina, þá er það betra með brtt. þess um en að hafa það óbreytt.

Þá vil jeg skjóta því til hv. 1. þm Skagf. (M. G.), að hann taki aftur brtt. við fyrirsögn frv. Jeg vænti þess, að hann athugi það, og þá býst jeg við, að hann komist á þá skoðun, að jeg hafi rjett fyrir mjer í því.

Jeg hefi svo ekki meira að segja um frv. Jeg sje ekki mikla ástæðu til að óttast það, því að jeg vona, að hv. Ed. veiti því hægt og rólegt andlát, þó að svo illa vildi til, að það yrði afgreitt frá þessari deild.