15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (1195)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Þorláksson:

Þessar umr. hafa staðið það lengi, að jeg býst við, að flestir hv. deildarmenn sjeu orðnir sjáandi og sannfærðir um það, að deildin er að reyna að vinna verk, sem að eins verður unnið í nefnd. Hjer er verið að reyna að koma í lögformleg orð og till. hugsunum þeim, sem fyrir mönnum vaka í þessu máli. Jeg tel það illa farið, að málinu skyldi ekki vera vísað til nefndar, þó að það væri borið fram af nefnd. Sú nefnd, sem bar það fram, hefir yfirleitt annarskonar mál til meðferðar, en þetta mál á í raun og veru heima í mentmn., og þangað hefði átt að vísa því. Þar hefðu orðið happadrýgri vinnubrögð en þau, sem nú eru reynd, að heil deild tefji sig á því árangurslaust dag eftir dag að vinna verk, sem að eins nefnd getur unnið. Jeg hefi ekki borið hjer fram till., því að mentmn. mun koma með frv. um þetta efni, en jeg vildi fara örfáum orðum um brtt. þær, sem fram eru komnar.

Jeg vil þá fyrst og fremst snúa mjer að brtt. nefndarinnar. Hv. frsm. (B. J.) gat þess, að þær væru komnar fram til þess að bæta úr göllum á frv., sem jeg hafði bent á við 1. umr. Tilgangurinn er að vísu lofsverður, en honum er á engan hátt náð með brtt. Það er fleira en skólaskylda, sem frestað er með frv., fleira, sem ómissandi er fyrir kaupstaðina. Frv. verður ófullnægjandi, þó að brtt. verði samþ. í þá átt, að kaupstaðirnir geti haldið skólaskyldu. Og það er efasamt, hvort það næst með brtt., því að hún er svo frámunalega illa orðuð, að ómögulegt er að sjá, hvaða vald eigi að hafa þessa ákvörðun á hendi. Þetta er ekki eingöngu formsatriði, því að mörg stjórnarvöld eru til, sem hjer gætu komið til mála. Spurningin er þessi: Er það sveitarstjórnin, hreppsnefndin eða skólanefndin, sem getur sett þessar reglur? Um þetta atriði gefur till. engar bendingar. Þá vantar og ákvæði um, að staðfesting stjórnarráðsins skuli til koma, sem altaf er þó nauðsynlegt að hafa því að það gefur reglugerðum, hverjar svo sem þær eru, meira gildi. Einnig vantar alla heimild fyrir því að setja viðurlög, ef reglugerðin er brotin, en til hvers er að setja reglugerð, ef engin viðurlög fylgja?

Af þessu er auðsætt, að brtt. er allsendis ófullnægjandi um það eina atriði, sem henni er ætlað að ná til, hvað þá um þau atriði, sem hún kemur ekki nærri, og var þó full þörf á að taka fram. Þess vegna verð jeg að lýsa yfir því, að þessum breytingum get jeg ekki greitt atkv. mitt.

Þá kem jeg að brtt. hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). í raun og veru er þar um nýtt lagafrv. að ræða, svo að ættu þær breytingar að ná fram að ganga, þá hlyti þetta frv. fjvn. að falla. Það er ýmislegt í þessum brtt. á þskj. 88, sem er talsverð breyting frá því, sem nú er, og kemur illa við. T. d. mundi það koma fullhart við bæjarsjóð Reykjavíkur og þykja viðbrigði frá því, sem nú er, en vitanlega kæmi það eins hart við aðra í samanburði við getu þeirra. Aðalmótbáran mundi verða sú, að löggjafarvaldið hefir 1919 sett launakjörin án tillits til þess, hvort sveitarfjelögin geta borið þau eða ekki. Það væri því óviðkunnanlegt, að Alþingi kæmi til sveitarfjelaganna eftir á og segði þeim að borga, því að þinginu 1919 hefði orðið sú skissa að gera þessi útgjöld svo há, að landssjóðurinn risi ekki undir þeim. Að þessu leyti get jeg því tekið undir það, sem hv. þm. Ak. (M. K.) sagði í sambandi við þessa till.

Þá er brtt. á þskj. 105. Jeg sje ekki að hún samrýmist brtt. á þskj. 88, eins og henni er ætlað, enda á hún efnisins vegna ekki heima þar. Jeg get vel skilið afstöðu hv. flm. (Ing. B.). Honum þykir varhugavert að velta yfir á sveitarsjóðina, ef ekki er hægt að slaka á kröfunum. En jeg held að rjett væri að lofa brtt. á þskj. 88 að ganga til 3 umr. án þess að brtt. á þskj. 105 væri hnýtt aftan í. Og mjer er óhætt að lofa hv þm. S.-Þ. (Ing. B.) því, að till. í líka átt sem hans mun koma frá mentmn. í sambandi við frv. um fræðslu barna, sem nefndin hefir haft til athugunar um stund. Jeg get heldur ekki fylgt algerlega brtt. á þskj. 105. Þar vantar líka skýra heimild um það, hverjir eigi að setja reglumar, hvort það sje fræðslunefnd eða hreppsnefnd. Ef það er fræðslunefnd, þá er sanngjarnt að heimta eftirlit af henni. En ef hreppsnefndin leggur niður skólahald og fræðslunefnd er á móti því og treystir sjer ekki að framkvæma fræðsluna án skólahalds, þá veit jeg ekki hvernig fer. Hjer verður því að kveða betur að og skýrara. Sje það hreppsnefndin, sem fara á með völd þessi, þá er of langt gengið, og samkv. brtt. á þskj. 88, þá er freistingin hættuleg, einkum í fátækum en fjölmennum þorpum.

Jeg þarf engu við að bæta út af því, sem hv. þm. hafa nú sagt, en skal þó benda á það í sambandi við orð hv. 1. þm. Árn. (E. E.), er hann þakkaði fjvn., að brtt. á þskj. 105 væri fram komin, — að sú brtt. hefði aldrei komið, hefði ekki verið hróflað við málinu, þá er það ekki rjett. Einmitt slík breyting hefði komið frá mentmn. og getur komið enn frá henni, ef hv. þdm. ætla ekki að hrifsa fræðslumálin úr höndum hennar, áður en hún leggur síðustu hönd á verkið.