15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1196)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Þorleifur Jónsson:

Þó að hv. þdm. hafi mjög veist að fjvn. fyrir að koma með frv. þetta, þá er engin vissa fyrir því, að menn víðsvegar úti um land sjeu sama sinnis, eða þeirrar skoðunar, að engin þörf sje að endurskoða fræðslulöggjöfina og bæta hana. Þetta frv. átti að eins að vera bráðabirgðaskipun, og því hefir nefndin nú komið með brtt. um að skipun þessi eigi fyrst um sinn að gilda um tveggja ára skeið. Á þeim tíma ætti að vera hægt að athuga þessi mál, svo að menn gætu sagt um, hvort þessu kerfi skyldi haldið áfram eða annað upp tekið, sem betur mætti fara.

Hv. þdm. verða að gæta þess, að æðsta boðorðið, og það sem hver einasti þm. fjekk í vegarnesi, er hann fór til þings, var það að reyna að koma jafnvægi á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Þetta hafði fjvn. í huga, er hún fór að fást við fjárlögin. Og innan nefndarinnar var enginn ágreiningur um það, að þetta boðorð, sem þingmönnum var gefið, eigi að reyna að uppfylla. Þess vegna er ekki að vita, að þjóðin yfirleitt sje á öndverðum meið við fjvn.

Þegar fjvn. fór að lesa fjárlagafrv. og athuga hvað mætti helst spara, þá komst hún að raun um það, að það var ekki ýkjamargt. Að vísu sá hún, að í 13. gr. voru stórar upphæðir til vegagerðar, síma o. fl., sem talsvert munaði um að skera niður. En yrði gengið inn á þá braut að skera slíkar fjárveitingar niður, býst jeg við að landslýð þætti súrt í broti, þó jeg hins vegar geri ráð fyrir, að þjóðin sætti sig við að fresta verklegum framkvæmdum í bili, ef með því yrði bættur hagur ríkissjóðs. En hví myndi þjóðin þá ekki taka því, þó að dregið væri til muna úr þeirri gífurlegu upphæð, sem nú er veitt til barnafræðslunnar? Mjer finst eftir þeim kynnum, sem jeg hefi af þjóðinni, mega fastlega gera ráð fyrir því, að hún sætti sig við þessar breytingar, og ekki síst fyrir það, að hjer er að eins bráðabirgðaskipun um að ræða.

Enda er þetta ekkert nýtt, hvorki á þingi nje annarsstaðar. Það er ekki langt að minnast, að kom til tals að fresta allri skólagöngu í landinu. Meira að segja var frv. hjer á ferðinni fyrir nokkrum árum, þess efnis að fella niður alt skólahald um tíma, ekki að eins barnaskóla, heldur alla æðri skóla líka. Þetta hugsuðu menn sjer þá, til þess að draga úr kostnaðinum við skólahaldið vegna hinnar yfirvofandi dýrtíðar, sem þá var farin að kreppa að þjóðinni. Þess vegna finst mjer ekkert óeðlilegt, þótt tekið sje til athugunar nú, hvort ekki sje vegur að draga eitthvað úr kostnaði ríkissjóðs til barnafræðslu um eitt eða tvö ár.

Auk þess sem fjvn. vildi draga eitthvað úr þessum mikla kostnaði við barnafræðsluna, var hún á einu máli um það, að vafi ljeki á, hvort fræðslukerfi það, sem lögleitt var fyrir 15 árum, sje það hagkvæmasta fyrir menningu þjóðarinnar. Nefndin efar það mjög, að sá grundvöllur, sem lagður var 1907, sje hinn eini heppilegi, og vildi því gefa þingi, stjórn og þjóðinni yfir höfuð tækifæri til þess að athuga það nánar.

Jeg neita því ekki, að jeg gerði mjer miklar og bjartar vonir um, að fræðslulögin myndu hefja þjóðina í mentun og manndómi. En eftir þessi 15 ár, sem liðin eru síðan fræðslulögin gengu í gildi, þá finst mjer að þessar vonir mínar hafi ekki ræst.

Það hefir verið talað um það hjer í deildinni, að nú væri alt fólk orðið svo mætavel að sjer, en mjer finst satt að segja, að það fólk, sem nú er um og innan við þrítugt og hefir haft þá barnaskólamentun, sem fræðslulögin fyrirskipa, sje ekki neitt betur að sjer en fólk um fertugt eða fimtugt, sem ekki hafði þessa lögskipuðu fræðslu. Hitt er annað mál, að fjöldi af ungu fólki hefir fengið mikla mentun á alþýðuskólunum.

Það vita allir, að heimilisfræðslunni til sveita hefir mjög hrakað þessi 15 ár. Menn segja, að það sje fólksleysinu að kenna, að enginn tími fáist til fræðslunnar frá öðrum störfum. En jeg hygg nú samt, að hægt væri að grípa nógan tíma á okkar löngu vetrarkvöldum, til þess að viðhalda heimafræðslunni, ef það væri ekki inn komið að varpa allri ábyrgð upp á kennarana og skólana, en það hafa bæði heimilin og prestarnir gert. En til þess að fræðslan komi að fullum notum, þarf að vera náin samvinna á milli heimilanna, prestanna og farskólanna.

Það hefir mikið verið rætt um það, að með okkar frv. yrðu fátæku börnin útundan og þeim meinað að njóta fræðslunnar eins og áður. En það er alls ekki rjett. Og hvað kauptún og sjávarþorp snertir, þá geng jeg út frá því, að þar verði skólum haldið uppi að eins með þeirri breytingu, að ríkissjóður þurfi minna að leggja til en áður.

Jeg fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að heppilegra sje að hafa 1 góðan unglingaskóla í hverri sýslu, sæmilega útbúinn af ríkinu. Unglingar eftir fermingaraldur læra meira á einum vetri heldur en á öllum skólaskyldualdrinum. Og unglingamentunin verður haldbetri en það, sem börnin fá nú, ef ekkert er bygt ofan á það síðar.

Það var ekki allskostar rjett hjá hv. frsm. (B. J.), að frestur þessi væri ákveðinn með það fyrir augum, að kjósa mætti um fræðslumálin við næstu kosningar. En hitt var okkur nefndarm. ljóst, að að loknum þessum fresti væri nýtt þing saman komið, og þá hægurinn hjá að breyta um kerfið, ef þjóðin vildi.

Hina brtt. okkar, um skólaskylduna, tel jeg til bóta, þó að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) telji vafa á því.

Út í brtt. á þskj. 88 og 105 skal jeg ekki fara. Þó gæti jeg að ýmsu leyti verið með brtt. á þskj. 88, frá hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), en verð þó að telja okkar till. betri.

Fleira þykist jeg ekki þurfa að taka fram, og læt því staðar numið.