30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (1199)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Pjetur Ottesen:

Þetta mál hefir verið almikið rætt hjer í hv. deild, en hæstv. forsætisráðherra skildi svo við það, að jeg gat ekki látið þar við sitja án þess að hreyfa andmælum. Hann sagði, að frv. hefði engan sparnað í för með sjer, þrátt fyrir það, þó bæði hv. frsm. og aðrir úr nefndinni hafi sýnt fram á það, að við það sparast um ¼ milj. króna af útgjöldum ríkissjóðs, þó veittur yrði ríflegur styrkur til skólahalds í kaupstöðum og kauptúnum, og styrkur til alþýðufræðslu aukinn verulega, eins og nefndin hefir lagt til. Þessu hefir hæstv. forsætisráðherra samt sem áður leyft sjer að mótmæla í margendurtekinni ræðu, og bygði hann mótmæli sín aðallega á því, að það yrði að bæta þeim kennurum upp skaða þann, sem þeir biðu, sem mistu atvinnu sína. En í lögunum frá 1919 er beinlínis gert ráð fyrir, að það megi leggja niður kennaraembættin án nokkurs endurgjalds handa kennurum. Nefndinni þótti þetta, ef svo snögg breyting yrði gerð á fræðslufyrirkomulaginu, — nokkuð harkaleg meðferð, og ljet þess getið í athugasemdum sínum við frv., sem bending til fræðslu og skólanefnda, að sjá yrði að einhverju leyti fyrir þeim kennurum, sem atvinnu mistu við breytinguna, fyrir atvinnu, eða stuðla til þess, að þeir kæmust að atvinnu. Nefndin gerði sem sje ráð fyrir því, að skólum yrði eftir sem áður haldið uppi í kaupstöðum og kauptúnum. En vel gæti svo farið, að þar yrði nokkur breyting á; t. d. að sumstaðar yrði það fyrirkomulag tekið upp að láta börnin koma sinn daginn hvert í skólann, börnin þannig flokkuð eftir aldri og þroska. Þetta annarsdagsskóla fyrirkomulag hefir verið töluvert rætt um nú upp á síðkastið, og er það að áliti lækna og uppeldisfræðinga gott og heilsusamlegt fyrir börnin, því langar og daglegar skólasetur hafi veiklandi og sljófgandi áhrif á þau. Það hefði því mátt búast við því, að það hefði orðið ein afleiðing hins frjálsa og óbundna fyrirkomulags, að þessi skólagönguaðferð hefði verið upp tekin. En með henni spöruðust kenslukraftar. En með þessu fyrirkomulagi í kaupstaðaskólum mundu heimilin þar aftur á móti finna meira til þeirrar skyldu, sem á þeim hvílir til að uppfræða börnin, sem skólafyrirkomulagið, eins og það nú er, hefir óneitanlega sljófgað og lamað mjög. Í sveitunum ylli frestun á framkvæmd fræðslulaganna ekki miklum breytingum frá því, sem nú. Víða er ekki haldið uppi neinum farskólum, og annast heimilin þar fræðsluna, sumstaðar með eftirliti kennara, en sumstaðar eftirlitslaust, og ber ekki á öðru en að þau börn sjeu eins vel að sjer, svona yfirleitt, og þau sem ganga í farskólana. Sveitirnar dregur því ekki neitt sem um munar um það fje, sem til þeirra fer úr ríkissjóði, enda er það ekki nema örlítill hluti þess mikla fjár, sem til barnafræðslunnar fer árlega, og sem var síðastl. skólaár full ½ miljón króna. Sveitirnar missa því sannarlega ekki mikils í, þó þetta frv. yrði samþ.

Það er því ekkert nema fyrirsláttur og staðlaust fleipur hjá hv. forsætisráðherra að halda því fram, að ekkert sparaðist við breytinguna, því það, sem í athugasemdum er sagt um þetta, og forsætisráðh. er alt af að flagga með, er að eins bending eða tilmæli til fræðslu- og skólanefnda, og getur, samkv. eðli sínu, ekki verið annað, þar sem engin ákvæði eru sett um það í frumvarpið, að fara svo að við þá kennara, sem atvinnu mistu við breytinguna, en það mundi, í öllum tilfellum, verða þannig í framkvæmdinni, að nefndirnar greiddu fyrir þeim með atvinnu, sem þess þyrftu með, án þess að þurfa neitt fje að leggja fram beinlínis í því skyni.

Það er því enginn vafi á, að verulegur sparnaður yrði að frv. — Það mundi spara ríkissjóði um ¼ milj. króna, um það er ekki hægt að deila, og þar með væri nú náð takmarkinu, að láta aftur ríkisbúskapinn bera sig, og yrði jafnvel einhver tekjuafgangur upp í væntanleg skakkaföll.

Þegar um fjárhag ríkissjóðs er að ræða, ber stjórninni, ef hún skilur skyldu sína, að hugsa um að fjárhagnum sje ekki stofnað í hættu og sporna af fylsta megni á móti því, að fjárlögum sje skilað með tekjuhalla. Það er heilög skylda stjórnarinnar að vera samtaka um það. Jeg man, að hæstv. forsætisráðherra hjelt fram þessari skoðun fyrir nokkrum árum síðan, er hann var fjármálaráðherra. Það kemur mjer því þeim mun undarlegar fyrir sjónir, hversu hann nú snýst við þeim tillögum, sem fram koma og beinlínis eða óbeinlínis stefna að þessu, því það er alkunnugt, að hann er nú erfiðasti þröskuldur í vegi þeirra manna, sem berjast fyrir því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.

Þá hefir hæstv. forsrh. (S. E.) lýst því með mjög átakanlegum orðum, að börn fátæklinga mundu, eftir að þetta skipulag yrði komið á, fara algerlega á mis við alla fræðslu. Er það hvorttveggja, að margir efnalitlir foreldrar eru engu síður færir um það sjálfir að segja börnum sínum til, kenna þeim að lesa og skrifa, en þeir, sem betur eru efnum búnir, og svo, þar sem þetta brestur, eru beinlínis ákvæði um það í frv., að úr þessu sje bætt á þann hátt, sem þar segir, og greiði dvalarhreppurinn kostnaðinn. Þetta sýnir meðal annars, að hæstv. forsrh. (S. E.) hefir bara aldrei lesið frv.; ekkert nema ástæðurnar fyrir því, — þær virðist hann kunna utan bókar.

Hann heldur því fram, hæstv. forsætisráðherra, að barnafræðslan mundi fara í kaldakol, ef frv. næði fram að ganga; en jeg held fram hinu gagnstæða. Framtíðin sker úr, hvort rjettara er, en þótt þetta frv. verði nú að lúta í lægra haldi, skyldi það ekki undra mig, að þeir tímar kæmu, er heimilisfræðsla og unglingaskólar yrðu taldir heppilegasta aðferðin.

Það eru þó ótaldar enn þær ástæðurnar, sem hæstv. forsrh. (S. E.) hefir lagt allra mesta áhersluna á gegn þessu frv. Önnur var sú, að það mætti best sjá, hversu mentunarástandið hefði verið slæmt fyrr á tímum á því, hve fáfróður og mentunarsnauður hv. þm. Dala. (B J.) væri. Það væri svo sem auðsjeð, að hann hefði ekki orðið fyrir þessum áhrifum á skapgerð og uppeldi barnanna, sem hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) var að lýsa, að börnin yrðu nú fyrir í skólum. Það væri svo sem auðsjeð, að þm. Dala. (B. J.) hefði ekki gengið á barnaskóla. — Hin var sú, að áður fyrri hefðu verið hin mestu vandræði að finna menn úti um sveitir, sem gætu gegnt hreppstjórastörfum og því um líku, en nú lægju erfiðleikarnir aðallega í að velja á milli allra þeirra, sem færir væru til þess. Svona væri breytingin mikil og áhrifin af fræðslufyrirkomulaginu góð. En mig langaði til að spyrja hæstv. forsrh. (S. E.), hvað hann hjeldi, að þeir væru margir, sem nú eru hreppstjórar, sem hefðu gengið í barnaskóla undir því fræðslulagafyrirkomulagi, sem nú er og lögfest var 1907 og hann tileinkar alla þessa miklu framför. Jeg veit svo sem, að það stendur ekki á svarinu.

Þetta voru þá aðalástæður hæstv. forsrh. (S. E.), sem hann greip til, þegar alt annað var þrotið, og sýna þær, vona jeg, hversu djúpt hann hefir grafið sig niður í málið, eins og hann sjálfur komst að orði á dögunum, þegar hann var að setja sig inn í fjárhaginn.

Það voru að eins þessar athugasemdir, sem jeg vildi gera, út af þessum margendurteknu fullyrðingum hæstv. forsrh um það, að enginn sparnaður væri að frv. og með því væri barnafræðslunni stefnt norður og niður.

Um brtt. þær, sem við hv. 2. þm. Skagf. höfum leyft okkur að koma fram með við brtt. 1. þm. Skagf. við þetta frv., skal jeg ekki fjölyrða, því háttv. meðflutningsm. minn mun gera grein fyrir þeim.