30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (1201)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Sigurðsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 168, ásamt hv. þm. Borgf. (P. O.). Um hana ætla jeg að tala, en ekki að blanda mjer í aðrar umr. um frv.

Þessi brtt. gengur í þá átt að breyta ákvæðum kennaralaunalaganna og koma á meira samræmi milli þeirra og almennu launalaganna. Launalögin eru mjög gölluð frá margra sjónarmiði, en þó hygg jeg, að barnakennaralaunalögin sjeu enn verri. Og það, sem einkennilegast er, er það, hve mikið ósamræmi er milli þessara laga í ýmsum efnum, og þó voru þau afgreidd á sama þingi.

Þegar ákveða skal, hve há laun þurfi að greiða starfsmönnum hins opinbera, þá er það aðallega þrent, sem mjer virðist koma til greina.

Það er:

1. Kröfur um undirbúning fyrir starfið eða embættið.

2. Lengd starfstímans.

3. Fjármunaleg ábyrgð, sem embættinu fylgir.

Jeg mun nú til athugunar og skýringar bera saman laun kennaranna við laun nokkurra annara starfsmanna ríkisins, sem líkt stendur á um. Þó kemur þriðja atriðið, sem jeg nefndi, varla til greina, og mun jeg því líta mest á tvö hin fyrnefndu atriði í þeim samanburði, sem hjer fer á eftir.

Skólastjórar við barnaskóla hafa 2000 kr. lágmarkslaun, og auk þess ókeypis húsnæði, ljós og hita. Það mundi kosta hjer í Reykjavík 180 kr. á mánuði eða meira, en jeg vil gera það 2000 kr. á ári. Það eru þá alls 4000 kr. Til þess að geta fengið þetta embætti, þarf maðurinn að hafa útskrifast úr kennaraskólanum. Það er 18 mánaða nám, og svo geri jeg ráð fyrir, að hann væri ytra einn vetur, til þess að fullnuma sig. Fyrir þessum launum þarf hann að vinna 6 mánuði á ári, en stundafjöldi á dag er óbundinn, þó ekki yfir 5 stundir. Nú tek jeg til samanburðar aðstoðarverkfræðinga þá, sem eru í þjónustu landsins, hjá vegamálastjóra og vitamálastjóra. Þeir fá í laun 3500 kr. Námstími þeirra er 11½–12½ ár, eða þrefalt lengri en hjá hinum. Þeim munu ætlaðar álíka margar vinnustundir á dag og hinum, en í alla 12 mánuði ársins, svo að starfstíminn er alls og alls helmingi lengri. Þó eru launin 500 kr. lægri.

Annar flokkur embættismanna er þó skyldari kennurunum. Það eru prestarnir. Þeirra starf er líka fræðslustarf að öðrum þræði. Prestar fá í laun 2000 kr. Námstími þeirra er 9–10 ár og starfstíminn alt árið. Ef jeg legg nú aukatekjur þeirra móti þeim fríðindum, sem skólastjórar hafa, sem þó nær óvíðast nokkurri átt, þá verður útkoman sú, að þeir hafa 2000 krónur fyrir 12 mánaða starf, en hinir hafa 2000 kr. fyrir 6 mánaða starf. Daglegan starfstíma prestanna er ekki unt að áætla, en það er með þá eins og kennarana, að þeir geta ekki bundið sig við nokkur veruleg föst eða bindandi störf, því að þeir verða að gegna kalli hvenær sem er. Jeg veit, að sumir segja, að prestarnir hafi ekkert að gera. Þetta er nú mjög misjafnt, og svo vel þykist jeg þekkja til, að mjer sje óhætt að segja, að prestar alment eru svo skylduræknir, að það er ekki þeim að kenna, þótt starf þeirra sje ekki þegið. Jeg tel ekki rjett að bera fram neinar getsakir í þeirra garð.

Jeg vil taka annað samanburðardæmi. Kennarar í kaupstöðum og forstöðumenn skóla utan kaupstaða hafa 1500–1600 kr. Námstíminn er 3 ár, vinnan 5 stundir á dag í 6 mánuði. Þar má taka til samanburðar aðstoðarmenn í stjórnarráðinu. Þeir eru flestir lærðir lögfræðingar. Launin eru 2000 kr. og vinnutíminn 5 stundir á dag, alt árið. Aðstoðarmennirnir hafa því að eins 400–500 kr. hærri laun en þessir kennarar, þrátt fyrir helmingi lengri starfstíma og þrefalt lengri námstíma. Fleiri dæmi gæti jeg nefnt, sem sýna það, að ekkert samræmi er milli þessara tveggja launalaga.

Nú er að vísu ekki rjett að miða alveg við vinnutímann. Venjulega mætti gera ráð fyrir, að hærra yrði að borga þá vinnu hlutfallslega, sem ekki er unnin nema hluta úr árinu, því að ekki er víst, að hægt sje að sæta jafngóðri atvinnu hinn tímann. Hjer má þó taka tillit til þess, að kennarar hafa besta tíma ársins sjálfir, og margir þeirra vinna þá arðsama vinnu, svo sem eðlilegt er. Sumir þeirra eru jafnvel starfsmenn hjá hinu opinbera, aðrir búa fyrir sjálfa sig o. s. frv. Það virðist því liggja í augum uppi, að kennarar bera hlutfallslega gildari hlut frá borði heldur en fjölmargir aðrir af embættis- og sýslunarmönnum hins opinbera. En þetta ósamræmi veldur óánægju. Hinir segja: Hvers eigum við að gjalda, sem kostað höfum meiru til og meira starf er heimtað af?

Til þess að bæta úr þessu ósamræmi launalaganna eru tvær leiðir fyrir hendi. Í fyrsta lagi að hækka launin hjá öllum opinberum starfsmönnum nema kennurunum, og það mundu kennararnir helst kjósa. Í öðru lagi að lækka laun kennaranna.

Að því er snertir fyrri leiðina, þá getur hún alls ekki komið til greina, vegna þess, að launin eru yfirleitt svo há, að þar er ekki á bætandi, en að taka einstök embætti og hækka launin, mundi raska öllu samræmi launalaganna. Eina lausnin verður því sú, að lækka laun kennara, þó ekki meira en svo, að þeir fái sanngjarna borgun fyrir starf sitt. — Í þessa átt gengur brtt. okkar hv. þm. Borgf. (P. O.). Vitanlega má alt af deila um, hvort mátulega langt sje gengið, en jeg leyfi mjer að fullyrða, að hjer er ekki farið neðar en sanngirni og samræmi heimta. Og þetta er vel framkvæmanlegt, og það án þess að gera neinum manni rangt til, því að allir kennarar eru settir en ekki skipaðir, eins og hv. þm. er kunnugt.

Loks vil jeg geta þess, að þessar breytingar spara ca. 70 þús. kr., ef gengið er út frá 80% dýrtíðaruppbót, — þar af koma í hlut ríkissjóðs ca. 45 þús. kr., og bæjar- og sveitarsjóða ca. 25 þús. kr. Á þetta ber líka að líta á þessum vandræðatímum. Jeg vona því, að hv. deild taki þessum brtt. vel.