30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1202)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Guðmundsson:

Af því svo langt er liðið, síðan háður var fyrri hluti 2. umr. um þetta frv., þá vil jeg leyfa mjer að minna menn aftur á brtt. mínar á þskj. 88 og rifja upp sumt, sem jeg sagði þá. Jeg benti á, hver sparnaður væri fyrir ríkið, að þær yrðu samþyktar. Miðað við 80% dýrtíðaruppbót, yrði það ca. 200 þús. kr. Meginhlutinn af þessu kemur niður á kaupstöðum, nokkuð á skólahjeruðum utan kaupstaða, en minst á fræðsluhjeruðum þar sem ekki er nema farkennari. Þegar litið er á þetta og líka hitt, að tekjuhallinn á fjárlagafrv., sem vjer vorum að afgreiða úr deildinni fyrir skemstu, er horfinn, ef þessar breytingar mínar ná fram að ganga, þá þykir mjer líklegt, að hv. deild fallist á brtt. á þskj. 88.

En af því að þetta kemur hlutfallslega þyngra niður á kaupstöðunum, þá er eðlilegt, að fulltrúar þeirra sjeu ragari við að samþykkja þetta heldur en fulltrúar sveitahjeraðanna. Þó vil jeg leyfa mjer að benda á það, að verði frv. það, sem næst stendur á dagskránni (á þskj. 129) að lögum, þá er opin leið fyrir sveitir, og enda kaupstaði líka, að draga heldur úr skólahaldinu, og jeg er viss um, að það verður gert.

Jeg tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið, en vona, að hv. þdm. sýni, að þeim sje alvara að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus og samþykki brtt. mínar.