30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (1205)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Þorláksson:

Jeg ætla að minnast örfáum orðum á brtt. á þskj. 168. Jeg býst við, að skilja megi hana svo, sem flm. hennar sjeu fallnir frá frv. því, sem fjvn. sem heild bar fram um frestun á barnafræðslulöggjöfinni. Þessi brtt. ásamt brtt. á þskj. 88 búa til nýtt frv., sem bægir frv. fjvn. frá, ef samþ. verða. Jeg mun því leiða hjá mjer að ræða frv. fjvn., en snúa mjer að brtt. á þskj. 88 og 168, sem koma eiga í staðinn.

Brtt. á þskj. 88 gengur út á að breyta lögunum um laun og skipun barnakennara, frá 28. nóv. 1919. Það er tvenskonar breyting; stefnir önnur í þá átt að lækka laun barnakennara, en hin að færa greiðsluskylduna af ríkissjóði og yfir á sveitarsjóðina frekar en nú á sjer stað. Brtt. á þskj. 168 fer lengra í þá átt að lækka laun barnakennara en brtt. á þskj. 88. Hv. 2. þm. Skagf (J. S.) gerði tilraun til að sanna, að með þessu væri betra samræmi fengið milli kennaralaunanna og launa annara opinberra starfsmanna. En það er flóknara mál en svo, að hægt sje að gera grein fyrir því í þingræðu, í von um að komast að rjettri niðurstöðu. Sem dæmi þess, hve hv. 2. þm. Skagf. (J. S.) mistókst þetta, má benda á það, að hann gleymdi einu höfuðatriði, er mikið tillit verður að taka til, er laun eru ákveðin. Hann nefndi 3 atriði, en hann gleymdi að gera mun á því, hvort launin eiga að gilda fyrir stöðu, sem hver meðalmaður í sinni stjett getur gegnt, eða hvort þau eiga að vera fyrir stöðu, sem úrvalsmennirnir einir innan stjettarinnar eru færir um að gegna. Þetta var áberandi, er hann tók til samanburðar forstöðumenn barnaskóla í kaupstöðum og aðstoðarverkfræðinga landssjóðs. Forstöðumenn barnaskóla í kaupstöðum, svo sem við barnaskólann hjer í Reykjavík, geta ekki orðið aðrir en úrvalsmenn kennarastjettarinnar, en allir, sem verkfræðipróf hafa, geta orðið aðstoðarverkfræðingar landssjóðs. Þetta er atriði, sem mjer virðist verða að leggja mikla áherslu á. Jeg get yfirleitt ekki fallist á það, að barnakennarastjettin verði tekin út úr og laun hennar lækkuð, án raunverulegs samanburðar, hvort lækkun þessi sje rjettmæt, samanborið við laun annara opinberra starfsmanna.

Þá er jeg nú kominn að því, sem aðallega kom mjer til að standa upp, en það var, hvernig hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vísaði hv. þm. til atkvæða um sínar brtt. Hann sagði, að fulltrúar kaupstaðanna mundu greiða atkv. á móti þeim, en fulltrúar sveitanna ættu að vera með þeim. Út af þessu vil jeg segja það hjer, sem jeg hefi oft sagt, þegar stjórnmál hafa borið á góma, að hið versta pólitíska verk, sem hægt er að vinna, er að ala á stjettaríg milli manna við sjávarsíðuna og sveitanna, eða egna þá hvora upp á móti öðrum. Það er vitanlegt, að hið pólitíska vald er nú hjá íbúum sveitahjeraðanna, og menn unna sveitunum þess vel, því það dylst engum, að menning sú, sem nú er hjer í landinu, er upprunnin úr sveitunum. En sá góði vilji gildir ekki lengur en meðan sveitirnar fara vel með þetta vald sitt. Þær hafa farið vel með það hingað til, en þær fara að misbeita því, ef það á að fara að nota það til þess að gera fjárhagslega upp á milli þessara tveggja aðilja. Það er skammsýni hin mesta af fulltrúum sveitanna, ef þeir ætla að láta stundarhagnað teyma sig inn á þá braut. Sá tími kann að koma, að valdið færist úr sveitunum til sjóplássanna, því að, svo sem kunnugt er, er íbúum sveitanna að fækka og dragast til kaupstaðanna. Þeir, sem óska þess, að pólitískt vald haldist áfram í höndum sveitanna, ættu því að forðast að láta svona hagsmunaskiftingu milli sveita- og sjávarmanna hafa áhrif á atkv. sitt í landsmálum.