31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (1210)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Jakob Möller:

Jeg hefi ekki hugsað mjer að halda langa ræðu, enda er nú varla á bætandi. En mjer þótti hlýða að gera grein fyrir atkv. mínu.

Jeg greiddi atkv. með frv. til 2. umr., en af því að mjer finst skoðanir manna allmjög á reiki, og flm. þess sumir hafa jafnvel gengið inn á aðra braut en frv. sjálft í fyrstu benti á, hefi jeg ákveðið að greiða nú atkv. á móti því við þessa umr. Jeg hefði getað fylgt frv. með það fyrir augum að auka unglingafræðsluna, eins og flm. þess virtust í fyrstu gefa í skyn, að aðaltilgangurinn væri, og flytja skólaskylduna yfir staðfestingaraldur. Jeg gæti trúað, að það væri betra, þó að hins vegar sje málið svo lítið rannsakað, að ekki sje rjett að hrapa að því. Það var tilgangur minn, er jeg greiddi frv. atkv. til 2. umr., að því yrði síðan vísað til mentmn., en það var felt. En þó að frv. hefði nú verið samþykt eins og það var flutt í upphafi, þá átti það þó að eins að vera tilraun; mátti þá hverfa aftur að gamla fyrirkomulaginu að þeirri tilraun gerðri, ef það hefði þá þótt betra. Á þeim grundvelli hefði jeg sennilega ljeð því fylgi mitt, en þar sem jeg sje nú, að margir hv. þm., og þar á meðal sumir flm. frv., vilja gera þetta til þess eingöngu að spara, sje jeg, að við eigum ekki samleið, því jeg er þeirrar skoðunar, fyrst og fremst, að á þessu sviði sje allra síst hægt að spara. En auk þess efast jeg um, að það fyrirkomulag, sem frv. ráðgerir, verði ódýrara í framkvæmdinni, ef í lagi ætli að vera. Þó að meira yrði lagt á sveitirnar af barnafræðslukostnaðinum, þá yrði enginn sparnaður að því, allra síst, ef síðan ætti að auka unglingafræðsluna á kostnað ríkissjóðs sem því svaraði. En nú er svo mikið farið að tala um sparnað í sambandi við þetta, að jeg óttast, að ef þetta frv. væri samþykt, yrði niðurstaðan að eins sú, að skólaskyldan á 10–14 ára aldri yrði afnumin og látið svo við það sitja, en ekkert kæmi í staðinn. Þess vegna hefi jeg ákveðið að greiða atkv. á móti frv.