31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (1217)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Eiríkur Einarsson:

Það er alger misskilningur hjá hv. þm. Borgf. (P. O.), að mjer hafi snúist hugur í þessu máli. Það, sem fyrir mjer vakti með frv. þessu, var aldrei sparnaðarráðstöfun, heldur breyting til heppilegra fyrirkomulags. Brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.) miðar að eins til sparnaðar, en breytir kenslukerfinu að engu leyti. Fyrir því er jeg á móti henni, því eins og jeg hefi áður tekið fram, þá tel jeg ekkert unnið við það, ef fyrirkomulag þetta stendur að öðru leyti óbreytt, að draga svo úr launum barnakennara, að þeir geti ekki orðið nema hálfir menn við starfann. Kæmi þessi launalækkun einkum óþyrmilega niður á kennurum í kauptúnum landsins, og fæ jeg ekki sjeð, að þeir fengju undir risið slíkum kjörum. Býst jeg ekki heldur við, að það sje í raun og veru löngun hv. þm. Borgf. (P. O.) að leggja meiri byrðar á neina stjett manna eða nokkurn kaupstað en hún eða hann er fær um að bera. En það er auðsætt, að þetta verður, sje brtt. hans samþ. Ætla jeg annars ekki að fjölyrða frekar um þetta, enda mun það ekki þýða, því að ætla sjer með rökum að þoka hv. þm. Borgf. (P. O.) frá þeirri skoðun, sem hann hefir einu sinni sett sjer í höfuðið, er eins og að berja með bitlausum ljá í snarrótarþúfu.