31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (1218)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Björn Hallsson:

Það er einkennilegt, að svo lítur út, sem umr. þessar ætli að snúast upp í eldhúsdag stjórnarinnar. En jeg ætla, hvað sem öðru líður, ekki að taka þátt í þeim búverkum.

Jeg vildi að eins segja nokkur orð um frv. það, sem hjer hefir verið svo lengi á leiðinni. Jeg veit eiginlega ekki, á hverju þetta frv. er bygt, þar sem ætlast er til, að frestað sje framkvæmd fræðslulaganna, en þó verður að halda uppi skólum í kaupstöðum eftir sem áður. Flm. þess ber ekki saman um, hvert sje aðalmarkmiðið með því. Hefir þó verið að skilja á 3 hv. flm. þess, að sparnaðarástæður standi þar aðallega að baki, og tel jeg það eflaust vaka fyrir þeim, en það vill frsm. fjvn. (B. J.) ekki heyra nefnt. Tók hann það ítarlega fram, að fje því, sem sparaðist með þessu, skyldi varið til aukinnar unglingafræðslu, og að kennarar ættu að fá full laun annarsstaðar frá, það sem ríkissjóður sparaði af launum þeirra. Finst mjer yfirleitt, að öll framsaga málsins beri vitni um of lítinn undirbúning og mikið ósamræmi milli flm.

Í mjer hafa barist tvö öfl viðvíkjandi þessu frv. Annarsvegar að spara ríkissjóðinn, en þyngja hinsvegar ekki um of á sveitar- og bæjarsjóðum landsins. Þetta fræðslubákn kostar landssjóð 350 þúsund krónur árlega, og er það mikil upphæð. En nú vill fjvn. spara 250 þús. af þessari upphæð úr ríkissjóði. Að nokkur útgjöld ríkissjóðs sparast með þessu frv. í bili, er því augljóst, og mætti ætla, að það nægði til þess, að jeg legði eyra við því, að ljett yrði með þessu á ríkissjóðnum. En eftir frv. og framsögu málsins er hjer um engan sparnað að ræða fyrir þjóðina, heldur færslu á útgjöldum frá ríkissjóði til sveitar- og bæjarsjóða, og sje jeg ekki svo mikið unnið við það. Efast jeg um, að bæjarsjóðirnir þoli þau útgjöld. Jeg er ósammála frsm. (B. J.) um það, að rjett sje að færa skólaskylduna yfir á unglingsaldurinn, því eins og menn kannast við, þá er fjöldi manna ekki fær til náms, og því algerlega misráðið að skylda þá hina sömu í skóla eftir fermingu. Þá þurfa líka margir að fara að vinna sjer brauð á eigin spýtur, og því rangt að binda menn við skólaskyldu. Hinsvegar er auðvitað nauðsynlegt, að til sjeu góðir unglingaskólar, sem taki þá unglinga, sem óska inngöngu þar. Jeg tel því rjettara að leggja aðaláhersluna á undirbúninginn til staðfestingarinnar. Álít jeg frv. það til bóta, sem er 5. mál nú á dagskrá og miðar að því að færa heimilisfræðsluna upp til 12 ára aldurs og hafa skólaskylduna að eins 2 ár. Það hafa nú komið fram 2 brtt. við hið upphaflega frv. Er önnur á þskj. 88, en hin á þskj. 168. Jeg hallast frekar að brtt. á þskj. 88 en að frv., eins og það er, því hún er vægari í garð þorpa og bæja. Með henni er ætlast til, að ríkissjóði sparist 200 þúsund krónur, og fellur meiri hluti þess á sveitar- og bæjarfjelögin, en hitt á barnakennarana. Nú hefir komið fram ný brtt. við þetta, þess efnis að lækka laun barnakennara. Jeg skal játa það, að barnakennarar hafa ef til vill tiltölulega hærri laun en aðrir starfsmenn ríkisins, en með þeirri lækkun, sem þessi brtt. ákveður, þykir mjer þó tekið of djúpt í árinni. Vildi jeg að þar gæti komist miðlun á.

Jeg er alls ekki viss um, að jeg fylgi frv. þessu út úr þinginu, en í hinu er jeg ráðinn, að greiða því atkv. til 3. umr. — það er ljóst, að ef verulega á að muna um það, sem ljett er á ríkissjóði, þá verður það að koma niður á bæði sveitarfjelögunum og barnakennurunum. Hinsvegar er mjer kunnugt um það, að margir kennarar í kaupstöðum gera ekki betur en komast af með laun þau, sem þeir hafa nú, og verður því að fara gætilega í launalækkun þeirra, svo að það verði þeim ekki um of tilfinnanlegt, og jafnframt fæli ekki betri hluta þeirra frá starfinu.

Mjer komu annars dálítið á óvart ummæli hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), þar sem hann mintist á, að þm. sveitakjördæmanna ættu að geta greitt breytingum hans atkv. Sje það meining háttv. þm. (M. G.), sem hann sagði þar, þá get jeg ekki fallist á hana. Jeg lít fyrst og fremst á mig sem þm. fyrir alt landið, en að eins í þrengri merkingu fyrir kjördæmið, og vona jeg, að flestir hv. þm. geri það sama. Auk þess eru flestir hv. þm. bæði þm. bæja og sveita í þrengri merkingunni, og verða því að vega afstöðu beggja þessara aðilja í þessu máli og ýmsum öðrum. Hjer má því engin „partiska“ koma til greina, þótt sveitir kæmist betur af eftir þessu frv. en þorp. En hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) dró nú úr þessu seinna, og sást þá, að hann meinti þetta ekki eins bókstaflega og út leit fyrir eftir orðum hans.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar og greiði atkv. með frv. til 3. umr.