31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (1219)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Pjetur Ottesen:

Jeg hefi þegar talað tvisvar í þessu máli, og hefi því ekki leyfi til að gera nema örstutta athugasemd; hefði þó óneitanlega verið skemtilegra, að mjer hefði ekki verið svo markaður bás, svo mjer hefði gefist færi á að gagnrýna dálítið varnir þær, sem hæstv. forsrh. (S. E.) hefir fært fram til afsökunar baráttu sinni móti sparnaði á þeim póstum, sem jeg nefndi. Hann sagði, að svo liti út, sem jeg hefði í hyggju að halda eldhúsdag yfir stjórninni. Svo var ekki, heldur vildi jeg að eins minna hæstv. forsrh. (S. E.) á loforð hans í „prógram“-ræðunni. Hann kvaðst þakka mjer fyrir, að hafa gefið sjer tilefni til að leggja sinn góða málstað fram til sýnis. Jeg þakka hæstv. forsrh. (S. E.) líka fyrir það, að hann gaf mjer og öðrum tækifæri til að sjá í rjettu ljósi, hvað stjórnin meinar með því, þegar hún talar um sparnað. Þetta kom sem sje fullskýrt fram í því, er hann telur það hreinasta hjegóma að spara ríkissjóði 314 þús. krónur.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði, að jeg hefði ekki haft rjett eftir sjer það, sem hann hafði sagt í ræðu sinni áður, þá verð jeg að gruna hann um það að hafa ekki skilið sjálfan sig. Jeg skrifaði upp það, sem hann sagði, svo þar er ekkert um að villast.