31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (1220)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg verð, eins og aðrir till.menn, að minna á brtt. sem fjvn. hefir gert við frv.

Fyrst er þá breyting á 1. gr. frv. um frestunina, og þarf jeg ekki að ræða hana. Svo er sú breyting við 5. gr., að heimila skólahjeruðum að setja á hjá sjer skólaskyldu. Veit jeg ekki hvað það á að þýða, því í rauninni eru barnakennarar í bæjum að eins yfirheyrslu- og eftirlitsmenn við námið. Börnunum er sett fyrir í skólanum og hlýtt yfir, en kent heima. Og þau börn, sem ekki er kent heima, læra heldur ekkert. Þegar í skólann kemur; því að að er ekki hægt í sama kenslutíma að kenna sumum og hlýða öðrum yfir. Niðurstaðan verður því sú, að nokkrum börnum er kent, en hin verða út undan. Þetta er sannleikurinn um hið núverandi fræðslukerfi landsins. Það, sem við viljum með frv. þessu, er að fá ábyrgð kenslunnar aftur yfir á heimilin. Er það að vorri hyggju sæmra, að menn í tómstundum sínum sitji við að kenna börnum sínum heldur en flaksast iðjulausir út um allar götur. En það lítur svo út sem menn vilji þetta ekki. Þeir nenna ekki að segja börnum sínum til. Þeir halda, að þeim beri ekki eins skylda að sjá fyrir þeim andlega sem líkamlega. Mig skyldi ekki furða á því, þótt einhverjir vildu líka bráðum fá ríkið til að skipa sjerstaka menn til að skeina börnin. En hjer er ekki einasta að ræða um börnin, heldur og þá þýðingu, sem kenslan hefir fyrir heimilin sjálf. Jeg veit ekki, hvort það þýðir nokkuð að rifja enn þá upp fyrir mönnum hjer latneska málsháttinn: Docendo discimus. Menn virðast nú á dögum fremur lítiltrúaðir á þessa gömlu visku. En jeg trúi þessum talshætti. Jeg veit, að enginn maður lærir neitt til hlítar, fyr en hann kennir það. Heimilisfræðslan mentar bæði þá uppvaxandi og fullorðnu kynslóð, og verður að flestu leyti áhrifadrýgri en skólakenslan. „En verði þinn vilji.“ Hv. deild verður nú að ráða þessu máli til lykta eftir því sem hún er deildin til. Jeg fylgi að eins brtt. á þskj. 97. Aðrar brtt. vil jeg ekki hafa, svo hvað sem við bætist, þá snýst jeg á móti frv. sjálfu.