13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (1229)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Bjarni Jónsson:

Þessi háttv. þm. (S. St.), er nú settist niður frá sparnaðarhjali sínu og embættismannadrápi, barðist nýlega fyrir fjölgun presta hjer í þessari hv. deild. Varð jeg til þess og fleiri að leggja honum liðsyrði, fyrir þá sök, að við hjeldum, að þar væri um nauðsynjamál að ræða, enda leit jeg svo á, að þjóðin ætti kröfu á að fá þá embættismenn, er hún óskaði.

En nú leyfir þessi sami hv. þm. (S. St.) sjer að fara með vísvitandi ósannindi um Guðm. Finnbogason prófessor, og það á Alþingi Íslendinga. Hann segir, að Guðmundur hafi eigi annað erindi í háskólatíma sína en að fullvissa sig um, að sætin í kenslustofunum sjeu auð. En sannleikurinn er sá, að engin stofa hjer á þingi mundi rúma áheyrendur hans. Svo eru fyrirlestrar hans sóttir.

Þessi hv. þm. (S. St.) nefndi að eins eitt atriði, sem honum þótti fánýtt og einskisvert í starfi Guðmundar Finnbogasonar, og reyndi að gera sjer mat úr því, þótt óhöndulega tækist til. Og það var einmitt það atriðið, sem jeg lagði áherslu á við flutning þessa máls 1917, að yrði eitt af rannsóknarefnum Guðmundar, og á jeg þar við rannsókn á sálarfræði glæpamanna, og nú finst mjer jeg ekkert oftala, þó að jeg segi, að rannsókn Guðmundar gæti komið víðar að liði, t. d. um sálarástand hinnar svo nefndu sparnaðarnefndar.

Jeg taldi það nauðsynlegt og tel það enn, að menn þeir, sem ætla að gerast dómendur, læri að athuga sálarástand þeirra manna, sem eru þann veg gerðir og frábrugðnir öðrum, að þeir eiga bágt með að lifa eftir þeim lögum og reglum, er þjóðfjelagið byggist á. Það verður að álítast nauðsynlegt þeim mönnum, er síðar ætla að dæma rjetta dóma, að fá leiðbeiningar um að athuga eftirtektarskekkjur manna, minnisskekkjur og vitnisburðarskekkjur. Og þessar rannsóknir hefir Guðmundur Finnbogason rækt með sjerstakri alúð og samviskusemi, eins og búast mátti við, því að hann er lærður vel og áhugasamur vísindamaður, auk þess sem hann hefir orðsins mátt, talar ágætlega og skortir aldrei áheyrendur.

En eins og jeg nefndi áður, geta rannsóknir Guðmundar komið víðar að gagni. T. d. verð jeg að álíta nauðsynlegt þingi og þjóð, að rannsakað sje sálarástand þeirra þm., sem bera fram jafnfánýt frv. og þetta, sem nú er til umr. Þeir telja það sparnaðarfrv., en það er það alls ekki, heldur mætti það miklu fremur kallast eyðslufrv., því það gerir bæði að eyða dýrmætum tíma frá nauðsynlegum þingstörfum og kostar ríkissjóð mikið fje.

Að slátra einum eða tveimur embættismönnum getur ekki bjargað fjárhag ríkissjóðs. Mun því nær sanni að líta á frv. þetta sem kosningabeitu, og tilætlunin, að hrekklausir menn láti ginnast af því. Á annan veg er ekki hægt að skilja framkomu þessara sparnaðarmanna. Ef þeim kæmi til hugar að bjarga ríkissjóði, þá mundu þeir hafa reynt að gera till. um einhvern sparnað, auk þessara tveggja kennaraembætta, sem þeir vilja leggja niður.

Hefðu þessir menn ætlað að bjarga landinu, þurftu þeir að rannsaka orsakir þær, er liggja til fjárkreppunnar.

En það er alls ekki fjárhagur landsins eða gjaldeyrismálið, sem þessir sparnaðarpostular hafa tekið á stefnuskrá sína. Annars myndu þeir hafa grenslast eitthvað eftir því, hvernig bankarnir hafa búið við atvinnuvegi landsins, rannsakað gengismuninn og reynt að gera einhverjar till. um eitthvað til styrktar atvinnuvegunum, athuga um sölu afurðanna og viðhjálp á því sviði.

En alt þetta hafa þeir vendilega varast, þessir sparnaðarmenn, og þó segja megi, að laun embættismanna sjeu fjöður af fati ríkisins, þá bæta þó ein eða tvenn embættismannslaun ekki mikið fjárhaginn út á við.

Það er því auðsætt, að sparnaðarmennirnir hefðu þurft að lesa „Vit og strit“, svo þeir hefðu lært að strita með dálitlu meira viti.

Það er fjarri mjer að neita því, að spara eigi sem kostur er, og jeg hefi aldrei sýnt það, að jeg vildi bruðla með landsfje. En jeg hefi viljað og vil enn að sparað sje af skynsamlegu viti, eins og líka hitt, að jeg hefi talið sjálfsagt að láta þá menn njóta styrks af almannafje, sem væru þess maklegir. En þetta hefir verið talin mín höfuðsynd og jeg fengið eyðsluorð, af því jeg hefi viljað styrkja unga og efnilega gáfumenn, svo sem Þorstein Erlingsson, Einar Jónsson og Kjarval. Þessir menn voru lítt kunnir, er jeg bar þá fyrst fram, en þeir hafa ekki brugðist þeim vonum, sem jeg gerði til þeirra, eins og sjest á því, að nú vilja allir styrkja þá.

Fyrir þetta hafa skammsýnir menn nefnt mig eyðslusegg.

En vildi jeg gera upp að öðru leyti sakir þessar og benda á, hvaða till. jeg hef gert um fjármál, þá mun það sýna sig, að jeg hefi gert góðar till., þó að þær hafi ekki allar fundið náð fyrir augum þessara fjármálavitringa. Og það mega þeir vita, að þó hagur landsins sje ekki góður, þá hefði hann þó getað verið betri, hefði mínum till. verið fylgt.

En hvað á helst að spara og hvað er dýrmætast? Hvort er þjóðinni nauðsynlegra menn og mannvit eða aurarnir, fjármunir hennar?

Jeg gat þess einmitt við flutning þessa máls á Alþingi 1917, að þegar fertugum manni með ágætis vísindamannshæfileikum væri varnað þess að starfa að áhugamálum sínum, eða settur í eitthvað það, sem andstætt væri skaplyndi hans og hugsun, þá væri þar með eyðilagður allur betri helmingur af æfi mannsins.

Og það er gert meira. Það er kastað niður öllum þeim styrk, sem maðurinn hefir fengið frá því fyrst, að mentun hans hófst, bæði hjá foreldrum sínum, frændum og öðrum styrktarmönnum. Með þessu er ekkert sparað. Öllu er fleygt í sjóinn, vonum mannsins líka, er átti þann stóra draum að verða þjóðnýtur maður, ef hann fengi að njóta sin og vinna að áhugamálunum. Hann vissi hvers virði þau gátu orðið fyrir þjóðina og landið.

En þessu er öllu kastað á glæ.

Og til hvers?

Líklega til þess, að menn trúi frsm. (S. St.), að það sje ekki hagnýt sálarfræði að rannsaka sálarfræði glæpamanna.

Það eru ekki aurar, sem á að spara, þegar svona stendur á. Þegar þing og þjóð fleygir frá sjer slíku dýrmæti, sem jeg nefndi, þá drýgir hún aulastrik.

Það minnir á söguna um hrútana og bóndann. Tveir hrútar börðust á klettabrún og horfði bóndi á. Bardaganum lauk svo, að annar hrúturinn fjell niður fyrir hengiflugið. Þegar bóndi sá það, seig honum í skap, greip hrútinn, sem eftir stóð, og mælti: „Það er best þú farir á eftir,“ og fleygði honum fram af.

Og nú neyðist jeg til að spyrja þessa sparnaðarmenn: Hvort á heldur að spara smáfjárhæðir eða lánstraust landsins? Hvort á heldur að spara laun eins eða tveggja manna eða heiður landsins?

Menn, sem fara eins að og þessir svo nefndu sparnaðarmenn, þeir vinna einmitt á móti lánstrausti landsins og heiðri þess. Það er ekki langt að muna, að í sumar, þegar verið var að semja um lántöku okkar hjá Englum, þá var reynt að spilla lánstrausti landsins með því að vitna í þennan alkunna lánsgrát einhvers þm., sem fullyrti hjer á þingi í fyrra, að landið væri á hausnum fjárhagslega. Það þykja ef til vill hörð orð þetta, en enginn skal efast um það, að jeg fari með rjett mál. Og það ættu þm. að vita, að gagnvart þjóðinni bera þeir ábyrgð á orðum þeim, er þeir láta falla hjer í þingsalnum.

Jeg hefi heyrt hann, þennan sparnaðarpostula, háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) standa hjer upp ár eftir ár, dag eftir dag, og stundum oft á dag, til þess eins að lýsa því yfir í deildinni, að fjárhag landsins sje þann veg komið, að hann eigi litla eða enga viðreisnarvon. Og það er ekki lengra síðan en hjer á dögunum, að hæstv. þáverandi fjrh. (M. G.) vítti slíkt barlómshjal að makleikum. Því vil jeg í þessu sambandi lýsa því yfir, að enginn skal hafa orð mín til að spilla heiðri landsins eða lánstrausti. Slíkir menn sem háttv. frsm. (S. St.) eru þeir óþörfustu landi og þjóð, hvort sem heldur er á Alþingi eða annarsstaðar. Þeir eru alls engir sparnaðarmenn, en reyna með óvitahjali sínu að spilla heiðri lands og þjóðar.

Og hvort á nú heldur að spara laun Guðm. Finnbogasonar eða heiður Alþingis?

Jeg ætla ekki að svara þessu beinlínis, því svarið hlýtur að verða gefið með atkvgr.

En á það vildi jeg þó benda, að með því að samþ. frv. þetta, þá gengur Alþingi á bak orða sinna og frá gefnu loforði um það að nota starfskrafta mannsins í þjónustu ríkisins.

Jeg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp lögin, þau eru ósköp stutt og auðskilin. Fyrirsögnin hljóðar svo:

„Lög um að skipa dr. phil. Guðmund Finnbogason kennara í hagnýtri sálarfræði við Háskóla Íslands.“

Og fyrsta grein laganna hljóðar svo:

„Við Háskóla Íslands skal stofna kennaraembætti í hagnýtri sálarfræði, bundið við nafn dr. phil. Guðmundar Finnbogasonar.“

Jeg skal ekki fara út í það, hvort hægt er að leggja niður embætti, sem bundið er við nafn, á meðan viðkomandi maður vill gegna því, en jeg efast alls ekki um það, hvernig dómstólamir dæmdu það mál, og þangað hlyti það að fara, yrði frumv. samþ.

En að embætti þetta er bundið við nafn, er einmitt viðurkenning fyrir því, að hjer sje um vísindamann að ræða, sem eigi rjett á því að lifa og vinna að áhugamálum sínum.

Háskólinn er ekki embættismannaverksmiðja fyrst og fremst, heldur stofnun til viðhalds og eflingar vísindum í landinu. Og það er tvent ólíkt, að hlýða nemendum yfir, eða hitt, að vinna að vísindum. Að því síðartalda starfi verður ekki hlaupið eins og að moka fjós.

Ef Alþingi, samkvæmt till. meiri hl. sparnaðarnefndar, því hún mun ekki vera algerlega óskift um málið, leggur nú niður þetta embætti, þá er það þessu þingi fullkomin skömm og svívirða, óskammfeilni gagnvart því þingi, sem samþykti lögin, og svik við þjóðina. Því jeg er þess fullviss, að ef hin alvísa sparnaðarnefnd ætti fund með alþjóð um þetta mál, þá mundi ekki 1/10 hluti þjóðarinnar fylgja henni að málum um slík lagasmíði sem þetta frv. er.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar að sinni, en ef hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) gerir sig digran í svari sínu, þá mun jeg standa upp aftur.