23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1923

Jón Sigurðsson:

Jeg skal haga orðum mínum þannig, að ekki krefji langs svars, enda fara gætilega í sakirnar.

Þar sem háttv. frsm. (B. J.) gat þess að hann hefði spurt sig fyrir í háskólanum um það, hvort starf dr. Alexanders Jóhannessonar væri áríðandi, og fengið það svar að það væri það, þá vil jeg geta þess, að þetta er eigi fast embætti, svo háskólanum er þetta með öllu óviðkomandi. Þessu var upphaflega laumað inn af stjórn og fjárveitinganefnd á bak við þingið. Jeg verð að viðurkenna, að mig skortir þekkingu til þess að geta að fullu dæmt um þörf þess. En sú skoðun hefir komist inn hjá mjer, með rjettu eða röngu að embættið sje óþarft, og henni held jeg þar til mjer verður sannað hið gagnstæða. Þegar talað er um að leita álits háskólans eða annara viðkomandi stofnana um niðurlagningu embætta, þá tek jeg ekki mikið mark á þeirri umsögn; hjá þeim er áreiðanlega ríkjandi nokkurskonar samábyrgð um að styðja hver annan, það er því ekki þess að vænta, að þeir veitist hver að öðrum eða leggi til, að embætti sjeu lögð niður, þótt þau sjeu ekki bráðnauðsynleg. Eins og jeg hefi áður getið um, hefir þessum manni verið laumað inn smátt og smátt.

Þar sem síðasti forsætisráðherra og fjárveitinganefnd eru búin að koma málinu í þetta horf. Þá undrar mig ekki, þótt frsm. fjvn. taki í strenginn, því hann hefir altaf verið tilbúinn að styðja allar embætta- og fjárveitingar. En hann hefir samt engin rök fært fyrir þörfinni á þessu starfi enn. Hann sagði reyndar, að enginn einn maður gæti int það af hendi. En jeg vil þá minna háttv. þm. (B.J.) á það, að á árunum 1911–1916 gegndi einn maður þessu starfi.

Hann sagði líka, að ef fjárveitingin væri feld, þá væri það loforðabrigði. En sú rökfærsla heyrist altaf ef við einhverju á að hrófla. En það er auðvitað þýðingarlaust að karpa við háttv. þm. (B.J.) um skilning á fjárlögum og því, sem fjvn. hefir komið sjer saman um bak við tjöldin.

Um 2. liðinn skal jeg vera fáorður, enda ber þar ekki svo mikið á milli. Háttv. þm. (B. J.) sagði ófært að fella þá burtu, sem lengi væru búnir að standa þar. Háttv. þm. lítur svo á, að ef einhver hefir komist í einhverja stöðu hjá ríkinu, þá sje óverjandi að fella niður starf hans eða styrk til hans. En þetta er nú vissulega of langt gengið. Hvernig yrði fjárhagsafkoma framleiðenda, ef þeir fylgdu þeirri reglu að halda starfsmönnum sínum og greiða þeim full laun, þótt þeir hefðu lítið eða ekkert handa þeim að gera? Hann sagði, að enginn einn maður væri svo vitur að geta bent á þann besta, og því yrði að styrkja marga. Þetta er að vísu rjett, að slíkt er ekki hægt að sjá. En ef þessi hugsun er rakin út í æsar, þá ætti að styrkja alla, því annars getur farið svo, að mestu listamannsefnin verði útundan og njóti aldrei hæfileika sína, því aldrei munu öll listamannsefni sækja um styrk. (B.J.: Því ekki að koma með tillögu um það!). Jeg sagði þetta til að sýna fram á öfgarnar hjá frsm. (B.J.), því eftir hans skoðun þá ættu víst allir að sækja. Öll þjóðin kæmist á listamannastyrk, en hverjir ættu að borga?