13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (1232)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Jón Þorláksson:

Það er eins ástatt um þetta frv. og hið fyrra, að það fer einnig fram á afnám kennaraembættis við heimspekisdeild háskólans. Þar sem þessi frv. eru bæði borin fram af sömu nefnd, hefði sýnst rjettara, að þau hefðu bæði falist í einu frv., en slíkt gerir ekki svo mikið til, þar sem þau eru bæði samferða gegnum háttv. deild. En mjer hefir fundist vanta í ástæðurnar skýringar um heimspekisdeild háskólans yfirleitt. Og það er þess vegna, að jeg hefi leyft mjer að tína saman úr árbók háskólans á síðari árum nokkrar tölur til skýringar. Hefi jeg byrjað á árinu 1914–15, því þá var fyrra embættið stofnað, þeirra, sem rætt hefir verið um í dag. Og niðurstaðan hefir orðið þessi, að árið 1914–15 hafa verið í heimspekisdeild enginn nemandi, en 4 kennarar, þrír alt árið, en þeim fjórða bætt við á árinu.

nemendur kennarar.

Ár 1915–16 0 6

— 1916–17 1 7

— 1917–18 6 8

— 1918–19 8 8

— 1919–20 5 6

— 1920–21 9 6

Um nemendatöluna verður þó að gera þá athugasemd, að þeir eru ekki allir fastir í deildinni, t. d. 1919–20 voru 3 nemendur eldri, en að eins tveir nýir, og af þessum 5 eru árið 1920–21 eftir 2, en 7 nýir. M. ö. o. það, að nemendatalan er þó þetta há, stafar af því, að nemendurnir hafa látið innrita sig í heimspekisdeildina að eins 1 ár, og síðan horfið þaðan aftur.

Þess ber þó að geta, til þess að skýra að öllu leyti rjett frá, að einn kennaranna hefir það verkefni með höndum að búa nemendur annara háskóladeilda undir próf í forspjallsvísindum, en slíkur undirbúningur átti sjer hjer einnig stað áður en háskólinn var stofnaður. Enn fremur annast einn kennari heimspekisdeildarinnar um að kenna prestaefnunum undirstöðuatriðin í grískri tungu, eða það, sem kent var og lært áður í 2. og 3. bekk lærða skólans.

Þessar tölur, sem jeg nú hefi nefnt, sýnast bera þess órækan vott, að hjer er ekki að ræða um reglulega háskóladeild með nemendum og kennurum. Nemendatalan er svo lág, að ekki sýnist geta til mála komið, að hægt sje að halda henni uppi sem sjerstakri háskóladeild. Ástæðurnar fyrir því að halda henni uppi er því sá stuðningur, sem aðrar deildir hafa af henni og fyrirlestrahald fyrir almenning.

Fyrirlestra hefir Guðmundur Finnbogason haldið fyrir almenning um undanfarna vetur. Samkvæmt Árbók háskólans hefir hann á næstliðnum vetri haldið einn fyrirlestur á viku, um áhrif loftslags á sálarlíf manna, og haft allmikla aðsókn. Auk þess hefir hann kent þrjár stundir á viku, en í þeim greinum, sem að eins eru ætlaðar þröngum hring nemenda, og hafa þeir tímar því eðlilega verið miklu fásóttari. Í þessu hygg jeg liggja skýringuna á því, hve illa þeim hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og hv. þm. Dala. (B. J.) hefir borið saman um aðsóknina að fyrirlestrum þessa kennara.

Jeg hefi gert þetta yfirlit yfir nemenda- og kennaratölu heimspekideildarinnar, til þess að hv. þm. gæfist kostur á að gera sjer ljósari hugmynd um málið frá víðara sjónarmiði. Annars þykir mjer ekki ástæða til þess að orðlengja þar um frekar.