23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil svara háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.), viðvíkjandi leikfimiskenslu Ingibjargar Guðbrandsdóttur, því, að stúlkur hafa lært hjá henni og kent svo aftur víðsvegar um land. (M. G.: Hvar?). Jeg hefi ekki lært það utan að.

Mjer þótti eðlilegt að heyra það, sem fyrv. fjármálaráðherra sagði, en þó þykir mjer nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn, ef fjármálaráðherrarnir eru orðnir tveir (M. G.: Þm. sagði gleymt). Já, hann var nú svo góðgjarn.

Þá vil jeg nefna það, sem jeg hafði gleymt viðvíkjandi háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst.J.), þar sem hann sagði, að jeg vildi styrkja unga listamenn, en hefði láðst að veita fje til þeirra til að læra að lesa og skrifa, og jeg vildi kippa fótum undan mentun þeirra. Þetta er ekki rjett, því tillögur mínar miða einmitt í þá átt að gera þjóðina mentaðri heldur en hún verður með núverandi fyrirkomulagi.

Viðvíkjandi háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) skal jeg geta þess, að þó við færum að styrkja einn mann á ári til að verða listamaður, þá er óvíst, að hann yrði það. Eins rjett að allir verði listamenn. Jeg efast t. d. ekki um, að hann sje sjálfur listamannsefni. En annars átti rökleiðsla hans ekki við, þó rjett væri, því jeg gaf eigi tilefni til hennar. (J.S.: Þm. gaf tilefni til þess). Nei, jeg gerði það ekki.

En út af því, sem hann sagði um dr. Alexander Jóhannesson og kenslu í háskólanum, vil jeg geta þess, að jeg hjelt því ekki fram, að það væri bein lagaskylda að leita umsagnar háskólaráðsins um þetta mál, en jeg áleit það kurteisisskyldu. Þó þm. sje vel að sjer, þá er það þó rjett, sem hann sagði, að hann er ekki nógu gáfaður til að gera sjer ljósa grein fyrir því, sem þarf að kenna í háskólanum.

Eins og nú stendur kennir dr. Alexander þetta í háskólanum: Íslenska málfræði, norræna málfræði og norræna og germanska samanburðarmálfræði og almenna samanburðarmálfræði, gotnesku og engilsaxnesku. Ef þessi maður væri tekinn frá þessu starfi, þá myndi það, sem hann kennir, lenda á Sigurði Nordal, en hann kennir nú: Bókmentasögu, menningarsögu, íslenska tungu og skýringar á fornritum, goðafræði og samanburðargoðafræði. Þetta alt væri óhæfilega mikið verk fyrir einn mann, nema þá að námstíminn væri miklum mun lengri, en það gæti tæplega álitist heppilegt.

Það var að vísu satt hjá háttv. þm. (J.S.), að fyrst var ekki nema einn maður, sem kendi þessar námsgreinar, en þá gaf háskólinn mönnum eigi heldur kost á því að taka próf í þessari grein. Nú gerir hann það, og taka væntanlega 2 menn próf á næsta vori, sem áreiðanlega hefði eigi verið hægt með einum kennara.

Jeg tel hjer eigi með smádót eins og t. d. miðaldalatínu, sem jeg kenni og að sjálfsögðu má strika út. En jeg mótmæli því, að háskólinn megi missa dr. Alexander, nema þá að setja í staðinn jafngóðan mann, eða að skólanum verði sjeð fyrir jafngóðri kenslu, en það yrði líka að borga og yrði síst ódýrara.

Jeg hefi ekki farið hjer með nein skrök, og getur hv. þm. (J. S.) fullvissað sig um það með því að spyrja háskólaráðið um þetta.

Jeg skal svo eigi lengja umr. meira