21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (1266)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Magnús Jónsson:

Af því að það hefir nú komið tvisvar fyrir með stuttu millibili, að hv. allshn. hefir lagst á móti smábreytingum sökum þess, að við borð liggi breytingar og endurskoðun á stærri lagabálkum, er þetta heyri undir, þá vil jeg nota þetta tækifæri til þess að mótmæla þessari röksemd. Ef breytingin er til bóta og vafalaust er um það, að hún verði tekin upp í lögin, þá er lítið vit í að draga að gera hana. Held jeg, ef rannsakað væri, hvað mikið stjórninni hefir undanfarið verið falið með dagskrám og þál.till., að koma mundi í ljós, að þeir væru allmargir lagabálkarnir, sem koma eigi bráðum og að flestum smáumbótum mætti granda með þessari röksemd, að stærri lagabálkur um þetta efni væri á döfinni. En það er nú reynslan, að það hefir stundum dregist æðilengi, að nokkur gangskör væri gerð að málunum. Jeg mun því ekki hagga mínu atkv. vegna þessara röksemda.

Annars vil jeg taka það fram, að jeg er með frv., en móti brtt., þó ekki af sömu ástæðu og hv. allshn., heldur af því, að jeg er á móti málinu í sjálfu sjer, því að jeg býst ekki við því, þó að kjördæmaskipunin væri endurskoðuð, að Siglufjörður fengi þm., nema ef um stórkostlega fjölgun þm. væri að ræða. Öðru máli gegnir um Hafnarfjörð. Hann er 2. eða 3. fjölmennasti kaupstaðurinn og fengi því áreiðanlega þm., enda mesta ranglæti, að Seyðisfjörður, sem að eins hefir 900 íbúa, skuli hafa þm., en Hafnarfj. engan. Þetta mundi því áreiðanlega koma í einn stað niður. Hafnarfjörður fengi þm., þó að hann væri dreginn á því, nema því að eins, að alveg nýtt kjördæmaskipulag væri upp tekið, t. d. fá, afarstór kjördæmi með hlutfallskosningum, en þá yrði hvort sem er öllu að umturna, og gæti engan skaða gert, þó að búið væri að uppfylla þessa rjettlætiskröfu Hafnfirðinga. Tel jeg því, að ekki sje rjett að fella þetta frv.