21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (1269)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Stefán Stefánsson:

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) virtist ætlast til þess, að jeg, sem sparnaðarmaður, flytti ekki svona lagaðar till., en jeg vil segja honum það, að jeg er ekki svo mikill sparnaðarmaður, að jeg hiki við að flytja fram rjettmætar og sanngjarnar kröfur kjósenda, þó að þær kunni að hafa einhver útlát í för með sjer. Sami hv. þm. (Gunn. S.) gerði þess engan mun, þó að kaupstaðurinn hefði sjerstaka bæjarstjórn, og fanst hann í engu eiga meiri rjett en Árnessýsla til þess að bæta þm. við. Það er þó auðsætt hverjum skynsömum manni, að hjer stendur alt öðruvísi á. Auk þess, sem kaupstaðurinn hefir sjerstaka stjórn og aðskilinn fjárhag, eru atvinnuvegir hans alt aðrir en hins hluta kjördæmisins, en í Árnessýslu eru atvinnuvegirnir hinir sömu um alla sýsluna.

Jeg vil þakka hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) hans góðu undirtektir, og raunar hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) líka, en þó ekki nema að nokkru leyti, því að hann tjáði sig mótfallinn brtt. mínum. Háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) talaði um þann geipikostnað, sem mundi leiða af þessu við prentun Alþt., umræðupartsins, en það verð jeg að segja, að eigi bæirnir rjettlætiskröfu á því að fá þm., þá eru svona röksemdir fánýtar.