01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (1281)

67. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Magnús Pjetursson):

Jeg geri ráð fyrir, að öllum hv. deildarmönnum sje nú löngu kunnugt, hverjar ástæður þær voru, er knúðu mig til að bera fram þetta frv., enda eru þær að mestu skráðar í greinargerð frv. Samt sem áður vil jeg nú rifja þær upp í fáum orðum.

Hv. meiri hl. fjvn. hafði orðið ásáttur um að fella niður helming dýrtíðaruppbótar þeirra, kvenna og karla, sem styrks njóta samkvæmt 18. gr. fjárlaganna, eins og sýnt var með brtt. nefndarinnar. Mjer var og kunnugt um, að nærfelt helmingur nefndarinnar vildi fella hana niður með öllu. Vænti jeg, að hv. meðnefndarmenn mínir taki ekki hart á mjer, þó að jeg skýri frá þessu síðasttalda úr nefndinni, enda hygg jeg það ekkert launmæli verið hafa. Gat jeg jafnvel búist við, að sú till. kæmi fram í deildinni og næði þar samþykki. En þar sem jeg taldi slíka till. mundu verða langt frá því að auka veg þingsins, heldur mundi hún hvarvetna mælast illa fyrir utan þingsins, taldi jeg það skyldu mína að reyna af fremsta megni að sporna við því, að þetta næði fram að ganga. Þar sem nú þessi till. var borin fram af sparnaðarástæðum, gat jeg varla búist við, að fallið yrði frá henni, eða hún feld í deildinni, nema hægt væri að benda á, að á annan sómasamlegri hátt væri hægt að spara að minsta kosti jafnmikla upphæð. En er um það var að ræða, fann jeg í fljótu bragði enga upphæð skyldari hinni en þessa, sem hægt væri til að taka, enda er það nú þegar sýnt, að jeg hefi þegar náð tilgangi mínum með þessu frv., þar sem hv. fjvn. hefir, eftir því sem mjer er frá skýrt, látið lýsa yfir því, að hún tæki áðurnefnda till. aftur, í því skyni að fallast á þetta frv.

Það má sjá á ýmsum þingmálafundagerðum, sem liggja fyrir Alþingi, að kjósendur víðsvegar úti um land hafa skorað á Alþingi að afnema allar dýrtíðaruppbætur; jeg get búist við, eftir því sem áður hefir komið fram hjer í hv. deild, að það sjeu engar getsakir, að ýmsir hv. þm. hafi bent kjósendum sínum á þessa sparnaðarleið.

Jeg segi þetta af því, að jeg er ekki að reyna til þess að bera þetta frv. fram af því, að jeg telji dýrtíðaruppbótina órjettláta, heldur þvert á móti tel jeg hana rjettlátasta hluta launanna.

Reynt var til þess á síðasta þingi að breyta ákvæðum dýrtíðaruppbótargreinarinnar í launalögunum, en náði ekki fram að ganga vegna þess, að eftir dómi skýrustu lögfræðinga áttu embættismennirnir eftir sem áður lagakröfu til þeirrar uppbótar, er í launalögum er ákveðin. Taldi jeg þetta rjettan dóm. Að vísu er jeg sömu skoðunar enn, að Alþingi geti ekki breytt lögskipaðri dýrtíðaruppbót nema með samþykki hins aðiljans, og svo munu lögfræðingar líta á málið. Og sama er að segja um þá menn í 18. gr., sem svifta átti dýrtíðaruppbótinni, að laun þeirra eða eftirlaun helga þeim uppbótina á meðan dýrtíðaruppbót á launum manna er ekki algerlega úr lögum numin.

Nú mun einhver segja, að eins sje ástatt um dýrtíðaruppbætur til þm., að þær sjeu lögum samkvæmt, og ætla jeg ekki að neita því. En benda vil jeg á, að hjer er þó ólíku saman að jafna, því að það er hægurinn hjá fyrir Alþingi að komast í samband við hinn aðiljann, þar sem þm. geta sjálfir komið sjer saman um þetta atriði og tekið afstöðu til þess með atkv. sínu. Hins vegar gæti orkað tvímælis, hvort þeir hv. þm., sem atkv. greiddu á móti frv. þessu, ættu heimting á dýrtíðaruppbótum eða ekki.

Annars býst jeg við, að frv. þetta valdi ekki miklum deilum; geri fremur ráð fyrir því, að mikill meiri hl. hv. þdm. verði því fylgjandi, svo um það ætti ekki að þurfa að eyða fleiri orðum.

En þó bið jeg þá menn að athuga, er taka vildu dýrtíðaruppbæturnar af þeim launalægstu í 18. gr., að það eru einmitt mennirnir, sem ekki geta á nokkurn hátt borið hönd fyrir höfuð sjer, sem aðallega átti að níðast á. Um embættismenn þjóðarinnar er alt öðru máli að gegna. Þeir geta sett stólinn fyrir dyrnar og lagt niður vinnu sína, finnist þeim, að þeir sjeu rangsleitni beittir. Embættismennirnir geta hafið verkfall, en fyrir hinum liggur ekkert annað en að hola sjer niður í gröfina. Hjer var því um mikið ranglæti að ræða í garð þeirra aumustu og það sumra þeirra, sem slitið hafa öllum kröftum sínum í þarfir lands og lýðs.

Nei, „maður, líttu þjer nær, liggur í götunni steinn.“ Það mun meiri sómi þm. að byrja á sjálfum sjer. Það geta þeir. Og þegar þm. hafa gengið á undan með góðu eftirdæmi, er hægra aðstöðu fyrir þá að bera annarsstaðar niður á eftir.

Mjer finst, að hv. þdm. geti útkljáð þetta mál hjer á þingbekkjunum, og sje jeg því enga ástæðu til, að frv. verði vísað til nefndar.