22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (1285)

67. mál, þingfararkaup alþingismanna

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller) Jeg hefi í raun og veru litlu við það að bæta, sem sagt er í nál. meiri hl. Meiri hl. lítur svo á, að þeir starfsmenn þjóðarinnar, sem hjer eiga hlut að máli, verði að teljast jafnverðir launa sinna og allir aðrir starfsmenn hennar, sem sæta launakjörunum frá 1919, og jeg skal láta þess getið milli sviga, að 4 af nefndarmönnum þeim, sem nú skipa fjhn., áttu þá ekki sæti á þingi. Þingfararkaupið var þá ákveðið í samræmi við laun annara starfsmanna ríkisins. Með því nú að lækka þingfararkaupið sjálft eða dýrtíðaruppbót þm., sem einnig er í fullu samræmi við dýrtíðaruppbætur annara starfsmanna ríkisins, mundi þingið fella þann dóm, að laun þessara starfsmanna allra, bæði þm. og annara, væru nú of há yfirleitt. Þetta getur nefndin, eða meiri hluti hennar, ekki fallist á. Hann getur ekki fallist á það, að launakjör starfsmanna ríkisins sjeu óhæfilega há, og hann getur ekki fallist á, að dýrtíðaruppbótin sje að nokkru leyti ósanngjörn, en með því að fella nú niður dýrtíðaruppbót þm. telur meiri hl., að þingið gefi ekki einungis höggstað á sjer, heldur og öllum embættismönnum þjóðarinnar, og þann höggstað sje því ekki sæmandi að gefa, enda óverðskuldað. Það er og alment vitað, að fáar kröfur hafa komið fram um það að lækka þingfararkaupið, enda er bæði, að það er að fullu lögákveðið, svo er það og fyllilega sanngjarnt. Um þm. má nú vitanlega segja það, að ýmsir þeirra taka laun sín fyrir þingsetuna, án þess að sagt verði, að þeir missi mikils í tekjum, þó þeir sitji á þingi, en haldi sínum venjulegu launum fyrir því. En þó að þess sjeu dæmi, verður meiri hl. nefndarinnar þó að líta svo á, að ekki megi láta þorra þm. gjalda þeirra.

Það er og vitanlegt, að mikill hluti þm. verður að kosta miklu til að rækja störf sín, oft svo, að þingkaupið hrekkur ekki fyrir þeim útgjöldum. Dæmi þessa eru mörg og meðal annara hv. flm. frv. (M. P.). Og þingfararkaupið má ekki miða við hag þeirra þm., sem best eru settir, því með því væri öðrum, og líklega flestum, gersamlega bægt frá þingsetu.

Því verður ekki neitað, að með því að samþ. þessa launalækkun sýndu þm. ósjerplægni, og hana eigi alllitla, en meiri hl. fjhn. getur eigi látið það ráða afstöðu sinni til þessa máls, heldur aðeins það, sem í raun og veru er sanngjarnt, einkum þegar á það er litið, að fjárhagsatriði málsins er ekki svo stórvægilegt, að nefndin álíti, að það geti ráðið úrslitum málsins.

Þess ber enn að gæta, að þau ákvæði sem gilda nú um launakjörin, og þar með þingfararkaup, gilda að eins til 1. janúar 1925; þá koma öll launamálin til endurskoðunar á ný. En til þess tíma eru þau bindandi fyrir ríkið.

Af öllu þessu leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. verði felt.

Einn hv. nefndarmaður, hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), gat ekki orðið okkur hinum samferða í þessu máli. Hefir hann samið sjerstakt álit og komið fram með brtt. við frv., sem fer í þá átt að miðla málum, þannig að þm. fái hálfa dýrtíðaruppbót hlutfallslega við aðra starfsmenn þjóðarinnar. Meiri hl. nefndarinnar hefir ekki getað skilið til fulls, hver ástæða geti verið til þess að fara þennan milliveg, hvort það muni vera meiningin hjá þessum hv. nefndarmanni (J. A. J.), að hann telji þingfararkaupið orðið of hátt nú, en þó ekki svo, að það nemi því, sem frv. fer fram á, og sje því sanni næst að fara þennan meðalveg. Eða hvort það sje meining hans að telja fara vel á því, að þm. gefi eftir nokkuð af kaupi sínu, þó hins vegar frv. gangi of langt í því efni. Meiri hl. nefndarinnar vill ekki fást við þvílíkar bollaleggingar, en heldur aðeins við það, sem jeg hefi þegar tekið fram, að þm. eigi að sitja við sömu launakjör og aðrir starfsmenn landsins. Enn má geta þess, að þar sem brtt. gengur helmingi skemra en frv., er sá sparnaður, sem af henni gæti leitt, því minni, og því minni þýðingu hefði það fyrir ríkissjóð, að hún væri samþ.

Meiri hl. fjhn. gerir þetta álit sitt vitanlega ekki að neinu kappsmáli, en honum þótti sjer skylt að láta það hispurslaust í ljós, hvort sem það kann að falla í góðan jarðveg eða ekki.