22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (1286)

67. mál, þingfararkaup alþingismanna

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er ekki af því, að jeg telji laun þm. of há í hlutfalli við laun annara starfsmanna ríkisins, að jeg ber fram brtt. mína. Því þó þeir sætu á þingi árið um kring, mundu laun þeirra ekki nema meiru en á níunda þúsund kr., og er það engan veginn of hátt í samanburði við aðra. En jeg hefi litið svo á, að nú, þegar tekið er að draga úr dýrtíðinni, sjeu launin með dýrtíðaruppbót orðin talsvert of há í samanburði við það, sem þau voru 1919.

Það má nú ganga að því vísu, að er dýrtíðin minkar, græði starfsmenn ríkisins ekki óverulega á þessu fyrirkomulagi, er launabæturnar eru reiknaðar að haustinu fyrir alt árið. Þess vegna lagði jeg það til á þinginu í fyrra, að uppbæturnar væru reiknaðar tvisvar á ári og taldi, að á því mundi sparast talsvert, ef dýrtíðin minkaði.

Önnur ástæða brtt. er sú, að jeg tel óhugsandi, að hægt sje að koma í veg fyrir, að ýmsir þm. bíði talsvert fjárhagslegt tap við þingsetuna, ef þeir hafa mikilsverðum störfum að gegna utan Reykjavíkur. Það verður því ekki miðað við þá menn, en þingkaupið á að miðast við það, að þeir þm., sem hafa ljelega atvinnu eða eru fátækir, sjeu ekki útilokaðir af þeirri ástæðu, að þeir bíði fjárhagstjón við þingsetu. En jeg tel engan þeirra verða útilokaðan af þeirri ástæðu, þó að dýrtíðaruppbótin væri lækkuð um helming.

Það má nú segja, að það sje engin veruleg upphæð, sem ríkissjóði sparist með brtt. minni. Dýrtíðaruppbótin er ákveðin með launalögunum frá 1919 til ársins 1925. Með brtt. minni hygg jeg að sparaðist á þessum tveim árum 30 þús. kr., og þá upphæð tel jeg svo stóra, að vert sje að spara hana, ef ekki kemur fram knýjandi nauðsyn á móti því, að svo verði gert. En jeg hefi ekki heyrt minst á neitt slíkt. Hin eina frambærilega ástæða á móti þessu væri sú, að þingfararkaupið yrði þá svo lágt, að ómögulegt væri fyrir fátæka þm. að sitja á þingi, en það hefir ekki komið fram enn í ræðum hv. meiri hl.

Jeg skal játa það, að jeg legg ekkert sjerstakt kapp á, að brtt. mín verði samþ. Læt mjer annars nægja að vísa í nál. mitt.