03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (1290)

40. mál, hæstiréttur

Flm. (Pjetur Ottesen):

Þegar lög um hæstarjett voru til meðferðar á þingi 1919, þótti ástæða til, að hæstirjettur yrði skipaður 5 mönnum. Það var hvorttveggja, að búist var við, að starf hans yrði umfangsmeira en raun hefir á orðið, og á þeim árum var eigi horft í skildinginn, sem sjá má meðal annars af stofnun nýrra embætta og sýslana frá þeim tíma. Það vakti þá auðvitað fyrir þm., að búa bæri þannig um hnútana, að þeim, sem skytu málum sínum til hæstarjettar, væru sem best trygð sanngjörn úrslit mála sinna. En það má segja, að þessu sje best náð með því tvennu, að dómararnir væru heldur fleiri en færri, því að betur sjá augu en auga, og hinu, að þeir gæfu sig lítið við öðrum störfum, væru sem óháðastir.

Jeg skal játa það, að það er hægt að halda því fram, að það geti ef til vill verið skerðing á þessari tryggingu, sem með núverandi skipulagi á að ná, að þessu leyti, að fela hæstarjettardómendunum að hafa jafnframt á hendi lagakensluna við háskólann, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er ef til vill hægt að halda þessu fram, segi jeg, þó að jeg þykist þess hins vegar fullviss, að svo verði það alls ekki í framkvæmdinni. Þess ber að gæta, að í hæstarjettarlögunum er svo um hnútana búið, að þeir, sem dómaraembætti hljóta, hafi áður um ákveðinn tíma gegnt embætti, og veitingarvaldið þarf því ekki að renna blint í sjóinn með það, hvort viðkomandi maður hafi þá hæfileika til að bera, trúmensku og heiðarleik, sem til þess útheimtist að fela honum jafnmikilvægt og ábyrgðarmikið starf sem hæstarjettardómarastarfið er.

En það er fleira, sem kemur til greina í þessu máli.

Eins og tekið er fram í greinargerð þessa frv., hefir hæstirjettur haft mjög lítið að gera í þessi 2 ár, sem hann hefir starfað. 1920 voru dæmd þar 34 mál, en 1921 ekki nema 26, eða að meðaltali 30 mál á ári. Það getur því engum dulist, að þetta er nauðalítið starf fyrir 5 dómendur, sem auk þess hafa sjötta manninn sjer til aðstoðar, sem er hæstarjettarritarinn.

Til samanburðar skal jeg geta þess, að bæjarfógetinn í Reykjavík dæmdi síðastl. ár um 400 mál.

„Praktiskt“ sjeð er þetta fyrirkomulag nauða óhaganlegt og lítt viðunandi, fyrst og fremst af því, að það er öldungis óhæft í jafnfámennu þjóðfjelagi að binda starfshæfileika svona margra og mikilhæfra manna við svo lítið starf; við þurfum sannarlega á því að halda að geta notið allra okkar starfskrafta sem mest og best, og síst af öllu megum við við því að leggja að miklu leyti fyrir óðal hæfileika og starfskrafta þeirra manna, sem eru að einhverju leyti afburðamenn á sínu sviði, eins og að sjálfsögðu ber að líta á um þá menn, sem með framkomu sinni sem embættismenn hafa aflað sjer þess trausts að vera skipaðir hæstarjettardómarar.

Enn er ein hlið þessa máls, sem eigi má láta órannsakaða á þessum tímum. Það er kostnaðurinn.

Jeg gat þess áðan, að þegar hæstarjettarlögin voru samþykt, var ekki horft í það að auka útgjöld ríkissjóðs, enda var þá auðveldara en nú að fá tekjur, sem gætu vegið á móti útgjöldunum. En þetta horfir öðruvísi við nú og nægir að benda á skýrslu hæstv. fjrh. (M. G.) um fjárhag landsins sem áþreifanlega sönnun fyrir því, að ástandið í þeim efnum er engan veginn glæsilegt. Hvað þjóðarbúskapnum viðvíkur, þá virðist því ekki vera um nema tvær leiðir að ræða. Hin fyrri er sú, að draga úr útgjöldum ríkissjóðs svo sem framast má. Hin er sú, að láta vaða á súðum, eins og verið hefir, og stofna til útgjalda og safna skuldum á skuldir ofan, í trú á lánstraust ríkisins. Jeg vona, að flestir muni vera mjer sammála um, að taka beri hinn fyrri kostinn.

Í greinargerðinni er það tekið fram, að ef frv. næði fram að ganga, mundu sparast, þegar þessi breyting væri að fullu komin í kring, um 33 þús. kr. á ári, og tel jeg það eigi alllitla fúlgu á þessum eina pósti. Jeg vil ekki að neinu ráði við þessa 1. umr. ræða einstaka liði frv. 1. gr. inniheldur aðalbreytingarnar; í henni er og kveðið á um það, hvernig að skuli farið meðan þetta er að komast í kring.

Það má nú segja, að þar sem við, sem flytjum þetta frv., erum allir bændur, þá sje ef til vill ekki næg trygging fyrir því, að hin rjettarfarslega hlið þessa máls sje nægilega rannsökuð, eða með öðrum orðum hver áhrif þessi breyting hefir á rjettarfarið. En þar til er því að svara, að við höfum leitað álits lögfræðinga um þetta, sem eru þektir hæfileikamenn, og þeir eru þeirrar skoðunar, að þetta megi vel gera, og sjeu þessi störf mætavel samrýmanleg og fyrirkomulagið jafnvel „praktiskt“. Það má telja líkur til þess, að kenslan yrði haganlegri, raunhæfari og meira lifandi, ef kennararnir fást við dómarastörf jafnframt, því að þá kemur fleira fyrir þá, þannig að þeir hafa altaf nýtt og nýtt til brunns að bera, en aftur ef til vill hætt við, að menn verði ekki eins víðsýnir í þessum efnum eða glöggir á hina „praktisku“ hlið kenslunnar, sem löngu eru hættir dómarastörfum eða hafa ef til vill aldrei neitt við þau fengist.

Þessir lögfræðingar álitu heldur ekki þessi störf svo umfangsmikil, að þau geti ekki auðveldlega samrýmst þess vegna; svo að frá þeirri hlið málsins er þessari sameiningu alls ekkert til fyrirstöðu. Jeg hefi kynt mjer umr. á Alþingi 1903 um stofnun lagaskóla. Lögfræðingar, sem þar töluðu, höfðu nokkuð skiftar skoðanir um þetta mál, að láta dómarana í yfirrjettinum jafnframt hafa á hendi lagakensluna. — Sumir voru á móti, en aðrir álitu, að þessi embætti gætu farið vel saman.

4. gr. frv., mælir svo fyrir, að þegar hæstarjettarritaraembættið losnar næst, sje það lagt niður. Er það álit kunnugra manna, að svo megi vel vera, að embættið megi leggja niður að skaðlausu. En þó er ráð fyrir því gert, að þar til fullnaðarskipulag er á komið um hæstarjett, eftir frv., þá megi dómsmálaráðherra fela einum af fulltrúum stjórnarráðsins þetta starf, ef þurfa þykir. En þegar fult skipulag er komið á hæstarjett samkvæmt þessu frv., þá er það tilætlunin, að sá, sem yngstur er dómaranna, hafi á hendi upplestur skjala í dóminum og yfirleitt það, sem hæstarjettarritari gerir nú.

5. gr. er komin fram fyrir sjerstök atvik. Samkv. 28. gr. í hæstarjettarlögunum hefir dómsmálaráðh. leyfi til þess að veita mönnum rjett til að áfrýja málum, þótt 3 ár sjeu liðin frá því að sá frestur er útrunninn, sem ákveðinn er í lögunum, ef hann lítur svo á, að aðilja hafi eigi verið unt að áfrýja málinu fyr, enda verði honum eigi um kent. Dómsmálaráðherra á að skera úr, hvort þessi skilyrði sjeu uppfylt, áður en hann selur umsækjanda leyfið. Mjer er kunnugt, að í eitt skifti, er dómsmálaráðherra hafði veitt þvílíkt leyfi, ónýtti hæstirjettur það og vísaði málinu frá. Að slíkt geti komið fyrir er öldungis ótækt. Fyrst verður leyfisbeiðandi að borga leyfið til áfrýjunar dýrum dómum, því næst að leggja í þann kostnað, sem af undirbúningi þeim leiðir að leggja málið fyrir hæstarjett, en svo þegar alt þetta er komið í kring með ærnum kostnaði og fyrirhöfn, þá ónýtir hæstirjettur áfrýjunarleyfi dómsmálaráðherrans og vísar málinu frá af þeim sökum. Breytingin á 5. gr. á að fyrirbyggja, að þetta geti komið fyrir aftur. Enda hefi jeg heyrt, að sú sje reyndin á, að þessi ákvæði hæstarjettarlaganna sjeu nú dauður bókstafur og hafi verið það síðan þessi árekstur varð; dómsmálaráðherra hafi ekkert leyfi veitt, þó að um hafi verið sótt.

Þar sem þetta frv. er borið fram í því skyni meðfram að spara, hefði það átt að því leyti til að fara í sparnaðarn. Við flm. höfðum upphafl. hugsað okkur eina slíka nefnd í hvorri deild, en þar sem niðurstaðan varð sú, að þessi nefnd var kosin í Sþ., er ekki hægt að vísa málinu til hennar; þykir okkur því rjett, að málinu verði vísað til allshn., og er það till. mín, að því verði vísað þangað að þessari umr. lokinni.