03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (1293)

40. mál, hæstiréttur

Sigurður Stefánsson:

Fyrsti flm. þessa frv., hv. þm. Borgf. (P. O.), tók rjettilega fram, að aðstaða sparnaðarnefndar væri ill og hún bundin bæði á höndum og fótum, þar sem starfsemi hennar yrði öll að miðast við sameinað þing.

Þó vil jeg geta þess, að nefndin hefir einmitt um þetta mál hugsað. En hvort sem væri um að ræða breytingu á hæstarjetti eða háskólalöggjöfinni, þá ætlaði hún sjer ekki þá dul að koma fram með þær án þess að ráðfæra sig fyrst við rjetta málsaðilja. Henni er það fyllilega ljóst, að hjer er um mikið vandamál að ræða, sem ekki má hrapa að í neinu; þó hvarf nefndin frá því að setja sig í samband við háskólann, en sneri sjer eingöngu til dómendanna í hæstarjetti með þá spurningu, hvort ekki mætti spara ríkissjóði talsverð útgjöld með breytingu á skipun hæstarjettar. Nefndin sjálf taldi ekki fært upp á sitt eindæmi, með ólögfróðum mönnum, að ráða þessu máli til lykta, en þóttist hins vegar mega byggja nokkuð á till. sjálfra hæstarjettardómendanna.

Jeg skal játa, að mjer og fleiri þm. þótti of fljótt undið að því að flytja hæstarjett inn í landið, og fljótfærnislegt af stjórninni að leita ekki til dómendanna við yfirrjettinn við undirbúning þess máls.

Álit hæstarjettardómendanna höfum við ekki enn fengið, en von er á því bráðlega; þess vegna vil jeg ekki á þessu stigi málsins láta neitt uppi um till. þær, sem nefndin hefir hugsað sjer.

En þó vil jeg skjóta því fram, að nefndin hefir ekki að eins hugsað sjer að spara fyrir ríkissjóð, heldur hefir hún og ætlast til, að sparnaðurinn næði til allra einstaklinga þjóðarinnar, sem rjettar síns leita fyrir hæstarjetti. Eins og nú hagar til, eru svo fá mál rekin fyrir hæstarjetti, með því að málflutningur þar er svo dýr, eins og honum er hagað, að ekki er fært nema efnamönnum einum að skjóta þangað málum sínum.

Eins og þetta frv. ber með sjer, þá hefir það engan bráðan sparnað í för með sjer. En till. okkar um að fækka dómendum og breyta málflutningi, afnema munnlegan málflutning, en hverfa aftur til þess, er áður tíðkaðist í landsyfirrjetti, getur von bráðar sparað ríkinu útgjöld.

Þess vegna vona jeg, að sú nefnd, sem þetta frv. fær til meðferðar, ráði engu um afdrif þess fyr en hún hefir við okkur talað, sem sæti eigum í sparnaðarnefndinni.

Það dugir ekki að hrapa í neinu að þessu máli bara af eintómum sparnaðarástæðum, heldur verður að vanda sem best til breytinganna, og er þá sjálfsagt að leita til þeirra manna um allar upplýsingar, sem lífsstöðu sinnar vegna bera best skyn á þetta mál.