03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (1294)

40. mál, hæstiréttur

Bjarni Jónsson:

Þau tíðkast nú svo mjög hin breiðu spjótin, að jeg hefi ekki annað að gera á þingi hjer en að standa upp og lýsa yfir því, að jeg eigi ekki og geti ekki átt neinn þátt í jafnfáránlegri lagasmíð og þeirri, er nú berst frá þm. eins og skæðadrífa.

Það er gott til þess að vita, að sparað sje fje ríkissjóðs. En á að spara sjer í hag eða til skaða? Það er sú spurning, sem hv. þm. verða fyrir sig að leggja áður en þeir kollvarpa þeim grundvelli, er hið unga, íslenska ríki hefir verið reist á. Þetta mátti og skilja af orðum þess sparnaðarþm. (S. St.), er síðast talaði, og þykir mjer ekki nema gott til þess að hyggja, að honum sje ekki alls varnað.

Þær eru næsta einkennilegar, þessar breytingar á hæstarjetti, sem frv. fer fram á. Íslendingar höfðu um 50–60 ára bil heimtað hæstarjett inn í landið, og endalokin urðu þau, eins og kunnugt er, að þeir fengu hann.

En svo, þegar hann er fenginn og aðeins sestur á laggirnar, hvað verður þá? Þá á að afnema hann, því hvað getur það kallast annað en afnám hæstarjettar, eins og frv. ætlar honum að starfa? Á dögum Jóns Sigurðssonar hefði annað eins og þetta þótt fyrirsögn.

Einn háttv. þm. sagði, að það hefði verið fljótfærnisverk að flytja hæstarjett inn í landið. Því verð jeg að mótmæla. Það hefði eflaust þótt hlægilegt, ef við eftir 50–60 ára baráttu okkar bestu manna hefðum hafnað hæstarjetti, er hann stóð okkur til boða, og lagst á meltuna. Og hver hefði svo sem ástæðan átt að vera? Varla þó sú, að innanlands fengist engir hæfir menn, er dæmt gæti dóma jafnrjett og hinir dönsku?

En hefðum við hafnað hæstarjetti, þá var það í andstöðu við stjórnarskrána, eins og hæstv. forsrh. (J. M.) rjettilega benti á.

En það var fleira en hæstirjettur, sem við börðumst fyrir og heimtuðum líka að flyttist inn í landið.

Við vildum fullkominn prestaskóla, læknaskóla og lagaskóla og vorum lengi að basla fyrir því, að svo mætti verða. Að lokum tókst okkur að koma upp okkar eigin háskóla, og þá urðum við fegnir, því þá höfðum við þann metnað til að bera, að við vildum engir eftirbátar vera í menning og vísindum.

Saga okkar, lagasmíð og svo að sjálfsögðu tungan, eru þær greinar, sem við getum skarað fram úr í og orðið frægir fyrir. Í þessum greinum stöndum við betur að vígi en allar aðrar þjóðir, af því að hjer er um vísindaiðkun okkar eigin mála að ræða. Og það er eitt af starfsemi háskólans að vinna að því, að svo megi verða.

En þá verður mjer að spyrja: Hvað halda hv. þdm. að háskólakennarar í lögfræði geti starfað að vísindum, ef þeir eru líka dómendur í hæstarjetti?

En þingið verður að gæta þess, að vísindalaus getur þjóðin ekki lifað, og verður þá síst sparnaður með þessu frv., því þá yrði að kosta stórfje til sjerstakra vísindamanna.

Háskólakennarar eiga ekki að vera það, sem á erlendu máli er kallað „manuduktörar“. Þeir eiga ekki að toga út úr háskólastúdentunum utanaðlærðar þulur, eða stunda það eitt að unga út embættismönnum, heldur er þeim ætlað að vera vísindamenn.

Annars er það óhugsandi, að þetta frv. nái fram að ganga á þinginu. Það er meira að segja óhugsandi, að það næði fram að ganga á nokkru þingi í heimi. Og hver er þá sparnaðurinn, að bera fram frv., sem þegar er dauðadæmt? (P. O.: Við sjáum til.) Þetta frv. á líka að drepa flm. sína — þó ekki líkamlega, sem kallað er — heldur mega flm. vita það, að ekkert, sem þeir hafa gert, og ekkert, sem þeir eiga ógert látið, mun mælast eins illa fyrir og þetta tiltæki þeirra.