03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (1295)

40. mál, hæstiréttur

Jakob Möller:

Jeg ætla mjer ekki að tala um efni þessa máls, og ekki get jeg heldur rætt það frá vísindanna sjónarmiði. Jeg er yfirleitt allsendis óviðbúinn að ræða það; það eitt er mjer þegar ljóst, að ekki getur komið til mála að afgreiða slík lög á þessu þingi. Það væri fásinna að ætla þingnefnd það verk að gera slíkar gerbreytingar á embættaskipun landsins. Því meiri fjarstæða er það að taka til umræðu slíka flaustursmíð einstakra þm. sem þetta frv. er. — Það þarf mikinn undirbúning, og er því rjettast að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Annars verð jeg að segja það, að sparnaðarkapphlaup háttv. þm. fer að verða næsta hlægilegt, ef þessu heldur áfram. Kunnugt er, að skipuð hefir verið sjerstök sparnaðarnefnd, einmitt til þess sjerstaklega að íhuga embættaskipunina. Háttv. flm þessa frv. hafa þó ekki getað setið á sjer að taka fram fyrir hendur hennar og bera fram þetta frv., þó að sjálfir eigi þeir nú ekki hugmyndina. Þeir afsaka nú þetta flan sitt með því, að sparnaðarn. sje þannig skipuð (í Sþ.), að hún eigi illa aðstöðu um að bera fram frv. En jeg verð að líta svo á, að sú nefnd hafi verið skipuð þannig einmitt með það fyrir augum, að hún ætti ekki að koma fram með tillögur til deildanna eða þingsins, heldur til stjórnarinnar, til frekari athugunar.

Mun jeg afhenda hæstv. forseta rökstudda dagskrá um það, að málinu verði vísað frá nú þegar.