15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (1307)

40. mál, hæstiréttur

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Eins og sjá má af nál. á þskj. 161, hefir meiri hl. allshn. fallist á þetta frv. og mælir með því, að það gangi fram með litlum breytingum. Meiri hl. viðurkennir rjettmæti þeirrar viðleitni, sem frv. ber vott um, til þess að fækka þeim embættum, sem hjer um ræðir, þ. e. dómendum í hæstarjetti og kennurum í lagadeild háskólans, og telur þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir, heppilega. Meiri hl. viðurkennir það einnig, að reynslan hefir sýnt að störf hæstarjettar eru ekki meiri en svo, að vel mun hægt að finna menn, sem annað geta störfunum á þann hátt, sem frv. greinir.

En þá er að athuga þær mótbárur, sem helst geta komið til greina. Má líklega treysta því, að hið helsta af því tæi sje tínt til í nál. minni hl., á þskj. 209.

Það er fyrsta mótbáran, að frv. fari í bága við stjórnarskrána. Jeg vil nú halda því fram, að það fari hvorki í bága við anda stjórnarskrárinnar nje orðanna hljóðan. Það mun líklega helst vera 30. gr., sem hv. minni hl. telur að frv. brjóti. Þar er sem sje gert ráð fyrir því, óbeinlínis þó, að einhverjir sjeu þeir dómarar í landinu, sem eigi hafi líka umboðsstörf með höndum. Þetta var nú svo, þegar stjórnarskráin var sett, og það er eins um hana og önnur lög, að hún mótast af því ástandi, sem er, þegar hún er sett, en þó er ekki til þess ætlast, að hún viðhaldi því að eilífu. Hún er miðuð við sjerháttu þess tíma, þegar hún er sett, en er þó jafnframt allsherjarregla. Þó að svo hafi nú verið, að dómendur hafi verið, sem engin umboðsstörf höfðu á hendi, þegar stjórnarskráin var sett, þá er ekki bundið við, að þeir verði hinir sömu og jafnmargir upp frá því. Mætti ekki t. d. aðskilja umboðsvald og dómsvald meira en gert hefir verið og fjölga þeim dómendum, sem engum umboðsstörfum gegna, án þess að breyta stjórnarskránni? Brtt. meiri hl. flytur nú þetta líka nokkru nær, með því að undanþiggja dómstjórann kenslu. Auk þess þótti meiri hl. rjett að gera meðdómendurna sem óháðasta umboðsvaldinu, og vill því láta ákvæðin í 57. gr. stjórnarskrárinnar ná til þeirra eftir sem áður, svo að eigi megi setja þá af, nema eftir dómi, og þeir verði eigi fluttir í annað embætti nauðugir, nema verið sje að koma nýju skipulagi á dómstólana. Þetta er einmitt leyft og gert ráð fyrir því í 16. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessu ætti að vera girt fyrir það, að hjer geti verið um stjórnarskrárbrot að ræða.

Þá er það önnur mótbáran, að dómarahæfileikar og kennarahæfileikar fari ekki saman. Þar til er því að svara, að þessi störf eru ekki ólíkari en altítt er hjá þeim, sem verða að gefa sig við fleira en einu starfi innan sömu fræðigreinar. En þeir eru nú margir, bæði starfsmenn hins opinbera og aðrir, og eru sumir beint skyldaðir til þess. Og þetta eru það góð embætti, að ekki ætti að vera hætta á, að þröngt yrði um menn, og væri þá óþarfi að velja þá, sem að vísu kynnu að hafa annan hæfileikann, en væru gersneyddir hinum. Jeg tel einmitt líkur til, að jafnan mætti velja svo úr mönnum, að hægt væri að fá þá, sem hafa báða hæfileikana í bestum mæli. Annars höfðu flm. frv. gert grein fyrir því, að margt mælir með því, að sömu menn hafi störfin á hendi Dómandanum er góður lærdómur kennarans og vísindamannsins, en kennaranum er líka notadrjúg lífsreynsla dómarans.

Þá er það loks þriðja mótbáran, að þetta sje stórmál og vanti undirbúning. Undirbúningstíminn hefir nú verið síðan hæstirjettur var stofnaður, og þótt að því væri þá gengið með nokkru fljótræði, þá ætti nú orðið að vera hægt að átta sig á málinu.

Aðrar nje fleiri mótbárur eru ekki í nál. minni hl., á þskj. 209, og mun þar þó tínt til það, sem hægt er, enda prentað upp það úr svörum hæstarjettar og háskólans, sem helst þótti matarbragð að. — Síðast vil jeg geta þess, fyrir hönd meiri hl. allshn., að ekki er með þessu sagt, að hún vilji ekki aðrar breytingar á hæstarjetti, ef þetta verður samþ. Það hefir verið talað um að reyna að draga úr málskostnaði, og t. d. breyta fyrirkomulaginu og taka upp aftur skriflegan málflutning. En þetta er annað mál, sem kemur þessu ekki við.

Jeg vona svo, að hv. deild láti frv. ganga fram með brtt. á þskj. 161.