15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (1308)

40. mál, hæstiréttur

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg minnist þess nú, að hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) sagði við mig utanþings, að jeg hefði spilt fyrir máli með því að fara of geyst. Það var sameining Árnes- og Rangárvallasýslna, sem hann átti við. Það er þá víst af því, að jeg hefi ekki lært að temja mjer þennan varasemis veiðitón, sem svo margir hv. þm. nota. Nálgast þar stundum, að við eigi það, sem Finnur Árnason sagði um Kálf bróður sinn: „Það er til marks um Kálf, er hann mælir vel, þá er hann ráðinn í að gera illa.“ Jeg kann nú ekki að mæla svo um hug mjer. Jeg hlýt að nefna það fjarstæðu, sem er fjarstæða í mínum augum, svo sem þetta er. En þó mun jeg nú af stillingu mæla, eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gerði líka.

Það hefir eflaust verið sparnaður, sem vakti fyrir háttv. flm. þessa frv.; þann tilgang vil jeg síst lasta, enda þótt bersýnilegt sje, að enginn sparnaður getur orðið að því strax. En þótt sparnaður sje góður, þá verður að gæta þess, hvað missast kann við hann. Hjer er nú um að ræða ekki minna en allverulega rýringu á einum sterkasta þætti stjórnvaldsins, og það þeim, sem síst má rýrast; það er dómsvaldið. Að þessu finst mjer varhugavert að hlaupa athugunarlítið og gegn skoðun og áliti þeirra, sem hlut eiga að máli. Það er að vísu sagt, að einn kennaranna hafi samið frv. En hann mælir gegn því, eins og hinir aðrir, enda hefir hann víst samið það eftir beiðni flm., svo sem hann hefir oftar samið frv. fyrir ýmsa þm.

Þá vil jeg minnast á samband þessa frv. við stjórnarskrána. Jeg fæ ekki betur sjeð, þrátt fyrir ummæli hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.), en að frv. komi í bága við stjórnarskrána, ef ekki beint í bága við skýlaus ummæli hennar, þá samt við anda hennar. Hv. meiri hl. hefir ekki neitað því, að stjórnarskráin geri ráð fyrir því, að æðstu dómendur fari ekki með umboðsvald, og ekki heldur hinu, að hjer sje verið að blanda saman umboðsvaldi og dómsvaldi, en þá er líka andi stjórnarskrárinnar brotinn, og skal jeg nú sýna fram á það.

Stjórnarskráin byrjar á því að skifta stjórnvaldinu í landinu í þrjár greinar, löggjafarvald, umboðsvald og dómsvald. Sögulega undirstöðu þessarar skiftingar þarf jeg ekki að rekja fyrir hv. þm., en þeim er kunnugt, að stefnan hefir verið sú, að gera dómsvaldið sem hreinast og óháðast hinum greinum valdsins. — Vjer urðum lengi að hlíta því að hafa æðsta dómstólinn í öðru landi, en þó reyndum við að halda í þessa átt. Launamálanefndin frá 1914 gerði till. um að aðgreina alveg umboðsvald og dómsvald, og með stjórnarskrárbreytingunni 1915 voru yfirdómendurnir gerðir ókjörgengir. Þetta frv. aftur á móti, ef samþ. verður, veldur því, að allir dómendur í hæstarjetti verða kjörgengir, að undanskildum dómstjóranum einum. Það fullyrði jeg, að hv. meiri hl. allshn. hefir ekki athugað, því að það er full fjarstæða að gera hæstarjettardómendur kjörgenga. En það eru ýmsar aðrar greinar stjórnarskrárinnar, sem frv. heggur allnærri. Má þar nefna 56. gr., sem kveður svo á, að dómendur skuli skera úr um embættistakmörk yfirvalda. Bæri nú svo við, að ágreiningur yrði á millum lagadeildar og hæstarjettar, þá yrði niðurstaðan sú, að hæstarjettardómendurnir yrðu óhæfir til að dæma um þann ágreining, og á mörg fleiri dæmi, þessu hliðstæð, mætti benda.

Þá er og þess að gæta, að það er mjög óheppilegt, að sömu menn fáist við kenslu og dómstörf. Til hins fyrra eru ungir menn best fallnir, en til hins síðara menn með lífsreynslu að baki sjer.

Eitt dæmi til sönnunar nægir.

Hugsum okkur, að bæjarfógetinn hjer í Reykjavík yrði hæstarjettardómari. Mundi honum ekki reynast örðugt að setja sig inn í undirstöðuatriðin og „teoriurnar“ í lögfræðinni, sem nauðsyn er á við kensluna, og þó vita allir, að hann er hæfur dómari.

Nei, slíkum stórmálum og þessum má ekki flaustra af; þau krefjast vandlegrar íhugunar. En það eitt er víst, að við megum ekki hafa dómaskipun okkar mjög frábrugðna því, sem hún er hjá stærri þjóðunum, svo framarlega sem við viljum, að þær beri traust til æðsta dómstóls vors. Og á því ríður mest, að dómstóllinn sje algerlega sjálfstæður og óháður.

Þá er enn þess að gæta, að enginn sparnaður er við þetta. Hann fengist, ef sú leiðin væri farin, að fækka dómendum um 2. Gæti jeg sennilega fallist á það, en vildi þá um leið fá miðdómstól, en kostnaður við hann þyrfti ekki að verða mikill, því að bæjarfógetinn hjer gæti átt sæti í honum, og ef til vill prófessorar háskólans; til þess mætti miklu fremur nota þá en í æðsta rjettinn.

Þá hefir verið um það talað, hve kostnaðarsamt það væri að reka mál fyrir hæstarjetti. Þetta er satt, en frv. bætir ekkert úr þessu; það mundi fyrst verða, ef skriflegur málflutningur yrði upp tekinn. Jeg er þó þeirrar skoðunar, að heppilegast mundi að halda áfram munnlegum málflutningi við hæstarjett, en hafa hann skriflegan við miðdómstólinn.

Þá er það ýmislegt við frv. sjálft, sem þarf að athuga, bæði við form og efni.

Í 2. gr. er t. d. talað um, að ef autt verði sæti dómstjóra, þá skuli sá dómari, er lengst hafi gegnt því embætti, stýra dómi. Jeg skil ekki, hvernig á að „praktisera“ þetta, þar sem allir dómendur eru skipaðir jafnsnemma.

Þá er það algerlega ófært, að yngri menn en 30 ára skuli geta orðið hæstarjettardómendur.

Það, sem helst þurfti að breyta, hefir frv. aftur á móti ekki tekið; jeg á þar við 1. einkunn sem skilyrði fyrir því, að geta orðið hæstarjettardómari. Þetta er ósanngjarnt skilyrði og veitir enga tryggingu, því að alkunna er, að dómhæfileikar manna og lagaskýrleikur fer ekkert eftir því, hvora einkunnina þeir hafa hlotið, enda er eitt aðalskilyrðið, að dómarar sjeu rjettlátir menn.

Að öllu þessu athuguðu verð jeg að skora á hv. deild að fella þetta frv. Kysi jeg heldur, að hæstirjettur yrði fluttur út en frv. þetta yrði að lögum. Vil jeg að síðustu minna menn á, að það hefir altaf þótt ilt að heita griðníðingur, og svo þótti Grautar-Halla forðum, en þó er enn verra að vera eiðrofi. Nú vil jeg ekki segja, að menn rjúfi stjórnarskráreið sinn beinlínis með því að gefa þessu frv. atkv. sitt, en það er víst, að það gengur í bága við sögulegan tilgang og anda stjórnarskrárinnar. Og hv. þm. hafa ekki síður unnið eið að þessu. Óska jeg ekki, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, heldur þess eins, að það verði steindrepið.