15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (1310)

40. mál, hæstiréttur

Bjarni Jónsson:

Þetta mun vera eitt af þeim frv., sem hv. þm. hafa þóst þurfa að koma með, til þess að spara fje ríkissjóðs. En því mun vera líkt varið sem öðrum frv., er komið hafa fram á þessu þingi í því skyni að spara, að það mun lítt fallið til bjargráða í svipinn, því að það vita allir, að ekki er hægt að reka þessa menn úr embættunum, nema með dómi, og það er því undir þeirra vilja komið, hvenær sparnaðurinn kemst í framkvæmd. Þetta stendur líka í frv., og það er að því leyti hóflegra en önnur slík frv., sem hjer hafa komið fram. Mjer hefði því fundist, að þetta frv. hefði mátt bíða, þangað til stjórnin kemur fram með sparnaðarkerfi það, sem hún hefir á prjónunum. Það gæti þá hugsast, að hún kæmist að þeirri niðurstöðu, að hæstirjettur sje óþarfur, eða þá lagadeild háskólans. Það var að eins í einu sparnaðarfrv., sem fólginn var sparnaður frá þeim degi, sem það hefði verið samþykt, en það var frv. um að leggja starf mitt við háskólann niður. Jeg var alveg rjettlaus, að undanskildum þeim rjetti, er þm. vildu veita mjer.

En jafnvel þótt sparnaður væri í þessu frv. fólginn, þá fæ jeg ekki sjeð, á hvern hátt þingið ætlar að komast fram hjá stjórnarskránni. Jeg lít svo á, sem stjórnarskráin sje grundvallarlög, sem önnur lög megi ekki fara í bága við. En það er hægt að sýna fram á, að þetta frv. fer tvímælalaust í bága við stjórnarskrána. Flestir þeir, sem hjer eru, og að minsta kosti þeir, sem sátu á þingunum 1913, ’14 og ’15, vita, að til þess tíma höfðu æðstu dómararnir átt sæti á Alþingi. En með stjórnskipunarlögunum frá 1915 var þessu breytt og þeir undanþegnir kjörgengi, og það ákvæði er og í núgildandi stjórnarskrá. Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir það, að æðstu dómendur landsins tækju þátt í opinberum stjórnmáladeildin, og fengist þar með trygging fyrir því, að æðsti dómstóll landsins yrði hlutlaus dómstóll og óháður. Þetta var þrautrætt í nefndinni; jeg var á móti því í fyrstu að taka af nokkrum manni jafnskýlausan rjett sem kjörgengið er, en fjelst þó á það, að meira væri um það vert, að æðsti dómstóllinn yrði hlutlaus en þótt kjörgengið yrði tekið af dómendunum. Það er því ekki neinum vafa undirorpið, hvers vegna þetta ákvæði er komið inn í stjórnarskrána. Það er einungis sett til þess að fá fulla trygging fyrir því, að æðsti dómstóll landsins verði hlutlaus og áreiðanlegur. En hvað verður, ef þetta frv. nær fram að ganga? Þá fá dómararnir aftur kjörgengi og fara að taka þátt í stjórnmáladeilum og dægurþrasi, ef þeir vilja. En þetta er þvert ofan í tilgang, orð og anda stjórnarskrárinnar. Þá verður enginn hlutlaus dómstóll lengur til í þessu landi. Dómendur allir eru háðir umboðsvaldinu, nema þessi eini, sem undanskilinn er í frv. Það er alveg rjett, sem sagt hefir verið hjer, að það má láta þessa kensludómara eða dómkennara vera undanþegna því, að konungur víki þeim frá embætti, en hjá hinu verður ekki komist, að um leið og þeir takast umboðsstörf á hendur, þá fá þeir kjörgengi.

Þá er önnur grein stjórnarskrárinnar, sem þetta frv. rekst óþægilega á. Það er 56. grein. Þar stendur: „Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.“ En til þess að geta dæmt um þetta, þá má dómarinn ekki fást við löggjafar- eða umboðsstörf. Þá getur hann ekki talist óhlutdrægur dómari. Hann verður þá dómari í sjálfs sín sök.

Svo er enn eitt. Þar sem þetta frv. er bein breyting á stjórnarskránni, þá ætti þess að vera getið í fyrirsögn frv., ef það ætti að geta verið til umræðu á þessu þingi. En með því að svo er ekki, þá er frv. dautt frá upphafi, ef rjettum þingsköpum er fylgt.

Það getur verið gott og má vera, að þjóðin sje þeim mönnum þakklát, sem spara vilja fje og fækka embættum, en jeg hygg þó, að henni muni þykja fullmikið fyrir sparnaðinn gefið, ef hún vegna hans getur ekki verið örugg um að hún fái uppskorið fult rjettlæti, er um líf og æru er að tefla. Jeg er þess fullviss, að þjóðin vill fúslega gefa krónunni meira til þess að vera viss um það, að æðsti dómstóllinn sje hlutlaus og dómendurnir óháðir stjórnmáladeilum og flokkavaldi. Því að það er lífsskilyrði fyrir þjóðir, sem hafa þingbundna konungsstjórn, að til sje einhver dómstóll, sem sje fyrir utan allar stjórnmáladeilur, en það verður sá dómstóll aldrei, sem tekur á einhvern hátt þátt í umboðsstörfum.

Annars eru ýmisleg ákvæði í greinum þessa frv. næsta óskiljanleg. Eitt af skilyrðunum til þess að geta orðið hæstarjettardómari er t. d. það, að hafa verið 3 ár dómari í yfirrjetti. Jeg veit ekki um nokkurn mann á landinu, sem það ákvæði getur gilt um, fyrir utan þá, sem þegar eru komnir í dóminn. Annað skilyrði er að hafa verið skrifstofustjóri í stjórnarráðinu. Ekki fæ jeg sjeð, að menn, sem slíkum störfum hafa gegnt, sjeu dómhæfari eða rjettdæmari en aðrir menn. Þá á og að leggja hæstarjettarritaraembættið niður og fela yngsta dómaranum bókunina. Hjer er stigið spor aftur á bak. Ekki getur staðið á sama um bókunina, og hæstarjettarritarinn er hlutlaus gagnvart dómurunum, en þeir geta hins vegar oft verið ósammála innbyrðis. Ef einn dómarinn á svo að bóka, þá getur hann vilt málin fyrir meðdómendum sínum.

Nú hefi jeg sýnt fram á það, að í þessu frv. felst enginn sparnaður á næstu árum, að það fer beint í bága við stjórnarskrána, svo og, að þjóðin vill heldur fá tryggingu fyrir því, að æðsti dómstóllinn sje hlutlaus, en spara nokkur hundruð króna. En þá vil jeg að síðustu benda á eitt atriði. Þetta þing byrjar og endar með árás á háskóla Íslands. Þingið ræðst eins og stefnivargur á þessa nýju stofnun. Háskólinn er ungur og byrjaði með þeim kröftum, sem fyrir hendi voru. Af þeim, sem byrjuðu kenslu þar, voru þá engir þektir vísindamenn nema einn. En nú hefir reynslan sýnt, að þeir eru allir nýtir kennarar og efnilegir vísindamenn. Jeg undanskil mig vitanlega, sem er undirbúningskennari; jeg býst við, að jeg sje eins og jeg var, er jeg var kennari við latínuskólann. En hinir hafa allir reynst ágætlega.

Hjer er ráðist á tvær deildir, lagadeild og heimspekisdeild, en einmitt á þessu sviði byggja landsmenn allar vonir sínar á hinum unga háskóla í framtíðinni. Jeg hálfskammast mín fyrir að endurtaka það nú, jeg er búinn að segja það svo oft hjer, en það á þó við í þessu sambandi, að íslensk fræði er sú vísindagrein, sem Íslendingar geta best rakið og orðið best að sjer i, án þess að vera gáfaðri en aðrir menn. Þar eiga þeir að geta skarað svo fram úr, að hingað streymi allir þeir menn utan úr heimi, sem leggja vilja stund á íslenska tungu eða fornnorræna fræði. Íslendingurinn lærir hjer meira af móður sinni en hálærður háskólakennari getur kent úti í heimi. Íslendingar eiga því hægari aðstöðu og þurfa því litlu við sig að bæta, til þess að verða afburðamenn í þessari grein. En hið háa Alþingi skilur þetta ekki betur en svo, að hjer átti að skera niður ungan mann, sem kennir samanburðarmálfræði við þessa deild, afarduglegan vísindamann og efnilegan.

Þá er hin greinin, íslensk og norræn lögspeki. Hverjir ættu að vera hæfari til að lesa hana og kenna en einmitt Íslendingar? Hjer ætti að geta orðið besti staður í heimi fyrir þau fræði, ef Íslendingar kunna rjett með að fara. En hvað græða Íslendingar á þessu, kunna sumir að spyrja. Verða þeir nokkuð auðugri eða sælli fyrir þetta? Hjer kemur einmitt fram munurinn milli manns og sauðar. Það er auðvelt að færa rök að því, að það er andlegt atgerfi forfeðranna, sem haldið hefir hinni íslensku þjóð uppi til þessa, og fyrir þá sök hefir hún fengið sjálfstæði sitt. Og það verður í framtíðinni andlegt atgerfi, sem heldur henni uppi, ef menn gera sig ekki seka í þeim misskilningi að halda, að það sje á hinu sviðinu, sem menn eiga að skara fram úr. Þar eiga menn að hugsa um það að hafa nóg fyrir sig og þurfa ekki að vera upp á aðra komnir, en hins vegar kosta kapps um að verða afburðamenn á hinu andlega sviði. Það er hið eina, sem heldur smáþjóðunum uppi.

Þess vegna tel jeg þetta frv. dauðasynd. Það er einn þáttur í snöru þeirri, sem rjett er að hinni íslensku þjóð, í þeirri von, að hún láti ginnast til þess að drýgja sjálfsmorð.