15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (1313)

40. mál, hæstiréttur

Frsm. minni. hl. (Gunnar Sigurðsson):

Eins og vænta mátti, hafa engin rök komið á móti því, sem jeg og samherjar mínir hafa haldið fram gegn sameiningu þeirri, er frv. fer fram á.

En svo er ýmislegt ótalið enn, sem gerir sameiningu þessa fullkomlega fjarstæða. T. d. mætti búast við því, að málaflutningsmennimir væru lærisveinar dómaranna, en það munu fáir vefengja, að kennurum verður mishlýtt við í sína lærisveina, og gæti það að sjálfsögðu haft áhrif á dómana.

Þá mintst hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) á það, að fá mál hefðu verið dæmd í hæstarjetti undanfarin ár, og er það satt. En til þess er því að svara, að sveiflur eru ávalt á málafjöldanum, og fer það einkum eftir árferði og afkomu manna. Hæstirjettur tók til starfa á veltiárunum, þegar alt ljek í lyndi, nú eftir að fjárkreppan fór að þröngva kosti manna, hefir málatalan aukist til muna, eins og sjest á því, að árið 1921 voru það 26 mál, sem rekin voru fyrir hæstarjetti, en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs eru þau orðin 14, og með sama áframhaldi mætti gera ráð fyrir, að þau kæmust upp í 56 á árinu.

En málafjöldinn er ekki fyrir mjer neitt sjerstakt atriði. Einna stærsta ágalla frv. tel jeg þann, að dómarar fái kjörgengi, enda fullyrði jeg, að hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) hafi ekki athugað þetta, þegar hann upphaflega tók afstöðu til málsins. Því að í jafnlitlu þjóðfjelagi sem okkar er það stórhættulegt, og enda óverjandi, að láta dómara vera að vasast í pólitík. Þetta skilur hvert einasta mannsbarn á landinu, nema þá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), og er það undarlegt, því hann er þó af sumum talinn meðalgreindur maður.

Þá varði hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) miklum tíma í að reyna að sanna, að enginn munur væri á kennara- og dómarahæfileikum. Því neitar enginn, að kennarar og dómarar þurfi að hafa sem allra bestan undirbúning. En því hefi jeg og fleiri haldið fram, að best sje, að kennararnir byrji sem yngstir á starfi sínu, og í þessu sambandi hljóp hann yfir dæmi, sem jeg nefndi, og sem sýnir glögglega þennan mikla mismun: Núverandi bæjarfógeta í Reykjavík, sem enginn neitar að muni vera hæfur og þaulæfður dómari, en hinsvegar mundi hann miður fær til að kenna mönnum undirbúningsatriði lögfræðinnar.

Það kom að vonum mjög við tilfinningar þm. (J. Þ.), er jeg mintist á stjórnarskráreið í sambandi við þetta mál. Það er áreiðanlegt, að þó að kannske megi segja, að sameining sú, sem frv. þetta fer fram á, komi ekki beinlínis í bága við beinan bókstaf stjórnarskrárinnar, þá þverbrýtur hún á móti sögulegum tilgangi hennar og anda. En þar skjátlast hv. frsm. meiri hl. (J. Þ.), ef hann álítur, að þm. vinni aðeins eið að formhlið stjórnarskrárinnar, en ekki tilgangi hennar og anda. Jeg vil þvert á móti snúa því við og fullyrða, að þm. fyrst og fremst vinni eið að anda hennar og tilgangi. Það var því eðlilegt, að „eiðrofanafnið“ kæmi illa við hann, enda leiddi það hann út í mestu ógöngur, og svo barnalegur gerðist hann í rökfimi sinni, að rothöggið móti því, sem jeg hafði talað um stjórnarskrárbrot, var lúalegar dylgjur um, að jeg muni ekki fullnægja öllum skilyrðum 29. gr. stjórnarskrárinnar, sem jeg lýsi fullkomna fjarstæðu. Enda þó svo væri, sjá allir fullvita menn, að það kemur ekki stjórnarskráreiði þm. að minsta leyti við. Ef það er fjárhagur minn, sem hann er að dylgja um undir rós, þá er mjer engin launung á, að eins og stendur mun jeg ekki eiga fyrir skuldum. En jafnframt fullyrði jeg líka, að svo sje um fleiri menn hjer í hv. deild. Jeg veit vel, að jeg hefi tapað á því að leggja fje mitt í ýmiskonar fyrirtæki, eins og t. d. síldarútveg. Þetta hafa margir góðir menn gert, og jeg skammast mín ekkert fyrir það.

En ef við eigum annars, hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og jeg, að fara í samanburð, þá er það guðvelkomið frá minni hlið. Við höfum báðir verið framkvæmdamenn og lagt í mörg fyrirtæki, en sá er munurinn, að jeg er ungur og byrjaði ekki með mikið, en á sama tíma hefir hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) komið undir sig fótunum, vegna aðstöðu sinnar í þjóðfjelaginu. Hann hefir verið í þjónustu landsins, og það er sögn manna, að hann hafi ekki tapað á viðskiftum sínum við hið opinbera. Hann hefir átt sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur langalengi, sjeð um margar framkvæmdir bæjarins, en þó jafnhliða gætt eigin hagsmuna furðanlega. Hann er hluthafi í Eimskipafjelagi Íslands, og á þeim árum, sem fjelagið reisti sína miklu höll, útvegaði hann alt sementið í þetta mikla og ódýra(!) hús. Annars væri rjett að athuga, hvers vegna ekki var boðið út efni í húsið, eins og vanalegt er, þegar um opinberar byggingar er að ræða, því hitt lítur óneitanlega illa út, að láta einn af stærri hluthöfunum hafa einkarjett á því, er til byggingarinnar þarf.

Þetta eru aðeins smáglefsur til samanburðar. Vilji hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) halda áfram eins og hann hefir byrjað, þá er guðvelkomið, að jeg sýni honum sömu skil, með því að koma með ítarlegri skýrslu um þetta efni.

Annars býst jeg ekki við, að það sje af umhyggju fyrir efnahag mínum, að frsm. meiri hl. (J. Þ.) kemur með dylgjur þessar, heldur mun honum hafa sárnað hitt, að mjer hefir tekist að stöðva allar stærstu og mestu vitleysurnar, sem hann og fylgifiskar hans hafa ætlað að unga út í allshn. Að vísu hefir það reynt á þolrifin að koma fyrir þá vitinu. En að þeir hafa samt flutt hjer inn í deildina endileysu og fjarstæðu, eins og t. d. till. um þetta mál, það er ekki mjer að kenna. (Forseti hringir).

Jeg hefði nú að vísu ýmislegt fleira að athuga við þennan hv. „þing-Jón“, en skal þó við svo búið láta standa að sinni; og þó að jeg hafi dálítið farið út fyrir efnið, vona jeg, að hæstv. forseti viðurkenni, að það var ekki jeg, sem upptökin átti.