23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Kristjánsson:

Jeg ætlaði að minnast á 58. lið í brtt. nefndarinnar, en hæstv. forsætisráðherra (S.E.) hefir nú gert það, svo að litlu er við að bæta. Jeg get þó ekki leitt það alveg hjá mjer.

Mjer þykir hálfundarlegt að ætla nú að fara að klípa af þessum eftirlaunum, sem þingið hefir veitt Sigurði Jónssyni, fyrv. ráðherra. Þessi eftirlaun eru þó ekki svo há, borið saman við það, sem Björn Sigurðsson og Björn Kristjánsson fá fyrir að hafa verið bankastjórar í nokkur ár. Þeir fá 4000 kr. og dýrtíðaruppbót, en hann 1500 kr. Eitthvert samræmi verður að vera í gerðum Alþingis. Hitt verður því aldrei til sóma. Enda er og þetta hinn mesti smámunaskapur og hefir engin áhrif á fjárhag ríkisins. En svo er og um fleira hjá háttv. nefnd, og virðist sumt vera helst til að sýnast.

Þetta mál hefir líka aðra hlið. Hjer er aldraður maður tekinn í þessa stöðu, sem óneitanlega er ábyrgðarmikil. Hann er af alþýðustjett og getur ekki horfið að eftirlaunum vegna fyrri embætta, eins og tíðkast hefir um fyrverandi ráðherra.

Skoðun nefndarinnar virðist vera sú, að þinginu sje ekki vandgert við aðra fráfarandi ráðherra en þá, sem verið hafa í öðrum embættum áður. Ef þetta verður að reglu, er hæpið að nokkur maður af alþýðustjett fáist til að gegna slíku embætti, hve hæfur sem hann væri, að minsta kosti ef hann væri fátækur. Þetta væri illa farið og gæti orðið dýr sparnaður.

Þá var annað atriði, sem jeg vildi vekja máls á, þótt jeg búist við, að það valdi hneyksli. Það er 65. liður, stafliður a í brtt. á þskj. 117, um lán til Hrunamannahrepps til þess að koma upp smjörlíkisgerð. Nokkuð skyld lán og þetta eru ekki óvanaleg, nefnilega smjörbúalánin, en jeg verð samt að vera á móti þessu. Hjer er um iðnrekstur að ræða, sem ríkið á að hafa vakandi auga á. Það á sjálft að taka slíkan iðnað að sjer. Sú er reynslan í útlöndum að einstakir menn hafa stórauðgast og orðið miljónaeigendur á smjörlíkisgerð, en að mínu áliti væri sá gróði, sem af þessum iðnaði kynni að verða, best kominn hjá ríkinu sjálfu. Ef háttv. Alþingi væri framsýnt, þá gæti það fengið ríkinu hjer góða tekjugrein. Það er því mín skoðun, að ekki beri að lána fje til slíkra fyrirtækja, heldur taka sem fyrst að undirbúa framkvæmdir í þá átt, að ríkið taki þennan iðnað í sínar hendur.

Í þessu sambandi vil jeg minna á annað, sem væri mjög heppilegt að ríkið tæki í sínar hendur, og það er baðlyfjagerð. Landið þarf mikið af baðlyfjum, og því eðlilegast að ríkið sjálft annist tilbúning þeirra. Mun reynslan sýna, að þetta er hugsjón, sem kemur fyr eða síðar til framkvæmdar. Slæ jeg þessu fram nú til þess, að háttv. þm. vakni til umhugsunar um þetta.

En svo jeg víki að smjörlíkisgerðinni aftur, skal jeg geta þess, að það væru ekki svo litlar tekjur, sem ríkið fengi, ef það ætti smjörlíkisgerðina hjer í Reykjavík. Hefir hún gefið eigendunum stórtekjur. Vil jeg vona, að hæstv. ríkisstjórn taki þetta til athugunar, því það er mjög þýðingarmikið, að arður af svona fyrirtækjum lendi ekki hjá einstökum mönnum, heldur hjá ríkinu.