15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (1323)

40. mál, hæstiréttur

Jakob Möller:

Jeg gleymdi því alveg áðan að þakka hv. þm. Borgf. (P. O.) fyrir hreinskilni hans. Með því að andmæla því, að kenslustarfið væri umboðsstarf, játaði hann það óbeint, sem jeg hafði haldið fram, að hann hefði aldrei borið þetta frv. fram, ef hann hefði gert sjer það ljóst, að hæstarjettardómendurnir fengju kjörgengi, ef það yrði að lögum. En hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) talaði nú síðast, að mjer fanst, eins og það væri eitthvert aðalatriði, hvaða umboðsstörf dómendur þessir hefðu með höndum. En svo er vitanlega ekki. Ákvæði 30. gr. stjórnarskrárinnar er ekki til orðið vegna umboðsstarfanna, er undirrjettardómararnir gegna, ekki af því, að ekki hafi þótt fært að svifta undirrjettardómarana kjörgengi vegna þess, hvaða umboðsstörfum þeir gegna, og ekki heldur af því, að umboðsstarfalausir dómarar eigi að vera ókjörgengir vegna þess, að þeir hafa engin umboðsstörf á hendi. Tilgangurinn með þessu ákvæði var vitanlega í raun og veru eingöngu sá, að gera æðstu dómendur landsins ókjörgenga, vegna dómarastarfanna.