22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (1330)

3. mál, prestar þjóðkirkjunnar og prófastar

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Eins og sjá má á nál. og þeirri rökstuddu dagskrá, sem fylgir því, hefir nefndin orðið ásátt um að gera till. um að vísa þessu frv. til stjórnarinnar til frekari yfirvegunar og athugunar.

Frv. þetta, sem landsstjórnin hefir lagt fyrir Alþingi eftir ósk biskups, telur nefndin eigi nægilega undirbúið, ekki verið lagt fyrir synodus á fullnægjandi hátt eða hjeraðsfundi. Að vísu mun það hafa verið sent á prestafund við Þjórsárbrú, en eigi veit jeg, hvernig þeir hafa litið á það mál, enda þeir eigi nema lítill hluti þeirra, sem eiga við að búa, ef frv. verður samþ.

Frv. þetta tekur yfir þau lagaákvæði, sem að þessu lúta, og er ekki nema gott við því að segja að fá þau í eina heild. En ýms ný ákvæði í frv. virðast nefndinni óheppileg og koma losi á kirkjuna, og er slíkt miður heppilegt, einmitt vegna þess, að kirkjan á nú í vök að verjast að ýmsu leyti. T. d. um það, að frv. er eigi sem ítarlegast, má nefna það, að ekki er tekið fram, að kjósa eigi presta og prófasta, eins og verið hefir, þótt nefndin geri ráð fyrir, að sá sje tilgangurinn.

Þá virðist nefndinni það nýmæli orka tvímælis, að frv. gerir ráð fyrir því, að prestsefni þurfi eigi að hafa lokið prófi við háskóla Íslands. Þar virðist nefndinni gengið á rjett háskólans, og hefði verið rjett að bera þetta ákvæði undir hann áður.

Það er gert ráð fyrir því í 4. grein frumvarpsins, að menn, sem lokið hafa prófi á erlendum evangelisk-lúterskum skólum, geti orðið prestar hjer. Þetta þykir nefndinni varhugaverð nýmæli, því vitað er, að undirbúningi prestsefna frá slíkum skólum er víða ábótavant, ekki síst í Vesturheimi, en þaðan er helst búist við prestsefnum hingað.

Þá gerir sama grein frv. ráð fyrir því, að veita megi prestsembætti þeim, er tekið hafa próf á trúboðsskóla eða kennaraskóla.

Hjer þykir nefndinni helst til mikið slakað á um undirbúningsmentun presta, ef 3 ára nám á að gera þá hæfa til þeirrar stöðu, er nú þarf 10 ára nám til undirbúnings. Þetta þykir nefndinni athugavert og telur það geta orðið til þess, að gengið verði á rjett þeirra, sem stundað hafa nám hjer við háskólann. Þó að til þess þurfi undanþágu, þá geta söfnuðurnir miklu um það ráðið, með því að hafna þeim prestum, er sækja, og láta prestaköllin vera óskipuð, svo veitingarvaldið neyðist til að veita t. d. einhverjum kennara, er söfnuðurinn vill fá.

Þetta gæti orðið til þess, að aðsóknin minkaði að háskólanum og prestlærðum mönnum fækkaði. Þetta er enn óheppilegra, þegar þess er gætt, að sú stefna virðist nú ríkja hjá þjóð og þingi, að gera nú enn meiri kröfur til prestanna en áður var, og jafnvel fela þeim allmikið af starfi kennaranna.

Þá er það nýmæli, að aukaþóknun presta fyrir ýms prestsverk skuli fara eftir gjaldskrá, sem ráðherra setur með ráði biskups á 10 ára fresti.

Að vísu eru gjöldin nú nokkuð lág, en þetta hefði mátt lagfæra með því að hækka þau. Það er þegar búið að ganga fulllangt inn á þá braut að fella niður landauragjöldin, og líklega heppilegast að halda þessu í sama gjaldeyrisformi.

Hins vegar telur nefndin rjett, að presti sje sjeð fyrir fararbeina og ferðakostnaði, er hann gegnir aukaverkum. En telur þá rjettast, að viðkomandi maður annist það. En geti hann það ekki, þá borgi hann samkvæmt ferðakostnaðarreikningi prestsins. Með þessu væri girt fyrir það, að ferðakostnaðarreikningar gætu valdið ágreiningi.

Í 14. gr er gert ráð fyrir því, að prestur geti orðið fyrir sektum, ef hann fer yfir á svið nágrannaprests. Þetta virðist nefndinni nokkuð hart, og ætti að nægja þar „codex ethicus“, ekki síður fyrir prestastjettina en læknastjettina. Ætti slíkt naumast að verða til óvildar milli presta.

Þá ákveður frv., að veita skuli prestaköll frá 1. næsta mánaðar. Þetta getur orðið prestum óþægilegt, ef þeir þurfa t. d. að flytja fjölskyldu sína um vetur. Að vísu má veita þriggja mánaða frest, en best væri að halda gamla ákvæðinu, um veitingu í fardögum, og svifta eigi prestana þeirri hagsbót, sem því ákvæði fylgir.

Jeg fjölyrði svo ekki meira um þetta; álít rjett, að frv. gangi eigi lengra að sinni, enda tel því ekki liggja neitt á.