23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Kristjánsson:

Háttv. 1, þm. Árn. (E.E.) gaf mjer tilefni til að standa upp og segja nokkur orð. Var ekki laust við, að hann bæri mig brigslum og kvað hann ræðu mína hafa borið þess vitni, að jeg mundi orðinn syfjaður. En hvað sem því líður, þá þori jeg að leggja það undir dóm háttv. þm., hvor okkar framsetji hugsanir sínar skýrara hjer á þessum stað. Jeg tók það fram og stend við það, að hjákátlegt sje, þegar landið er áður búið að styrkja þetta fyrirtæki, og það ekki getað int það hlutverk af hendi, sem því var ætlað, að fara þá að bæta við nýjum iðnrekstri, sem enn síður gæti borið sig á þessum stað vegna samgönguerfiðleikanna. Því það er auðsætt, hver kostnaður yrði samfara slíku fyrirtæki. Þótt jeg sje ekki kunnugur á þessum stað, álít jeg, að flutningar allir verði að fara fram á hestum langar leiðir, og það tel jeg nærri frágangssök, sje um nokkra verulega iðnaðarframleiðslu að ræða. Jeg tel því litlar líkur til, að slíkt fyrirtæki geti átt nokkra verulega framtíð fyrir sjer. Yfirleitt þótti mjer þessi háttv. þm. (E.E.) líta nokkuð stórt á sig og kjördæmi sitt, þar sem hann verður óður og æfur, ef nokkur gerist svo djarfur að hreyfa andmælum gegn höfuðórum hans. Ekki þótti mjer röksemdirnar jafnast á við rembing hans. Víðsýnið var heldur ekki meira en búast er við af manni, sem hefir alið allan sinn aldur á láglendinu. Mun jeg ekkert af því taka aftur, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni. Jeg býst við, að háttv. þm. komi að litlu haldi, þótt hann beri fyrir sig orð þessa merka manns; hann mun vart bjarga sjer og sínum vafasömu fyrirtækjum út úr ógöngunum með því einu. Skal jeg svo ekki lengja umræðurnar frekar að þessu sinni.