16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (1368)

47. mál, myntlög

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Eins og háttv. flutningsm. (B. J.) hefir tekið fram er beint gert ráð fyrir því í 9. gr. sambandslaganna, að slíkir samningar fari fram við Svíþjóð og Noreg. Þó mun þetta fremur hafa verið sett inn sem formsatriði en ætlast væri til þess, að undinn yrði að því bráður bugur.

Þegar þetta ákvæði var sett, höfðu eigi fyllilega komið í ljós ýmsir ókostir við myntsamband, eins og síðar hefir orðið. — Það hefir nú orðið sýnt sig sem afleiðing af stríðinu, að innan norræna myntsambandsins, og ekki síður innan hins latneska, hefir myntin streymt þangað, sem gengið er hæst. Þannig hefir norræna myntin flust til Svíþjóðar. Alveg eins hefir farið innan latneska sambandsins. Þar hefir myntin streymt til Sviss, sem best gengi hefir, og að nokkru leyti til Spánar, sem einnig hefir hærra gengi en t. d. Ítalía og Frakkland. Kostir myntsambands eru auðsæir á friðartímum og þegar alt gengur vel, og eru því meiri, sem myntsambandið er stærra, en á ófriðartímum og þegar illa gengur, kemur sá ókostur í ljós, að öll myntin streymir þá til þess landsins, sem bestan fjárhag hefir

Ef, samkvæmt heimildinni í 9. gr. sambandslaganna, yrði slegin lögleg íslensk mynt, er alls eigi sagt, að samningar við Noreg og Svíþjóð um gildi myntarinnar hjá þeim yrði formsatriði eitt, eins og nú er ástatt. Lögin yrði þá að vera svo orðuð, að þau gætu komið heim við breytingar, sem hugsanlegt er að yrðu gerðar á myntfyrirkomulagi því, sem gildir um öll Norðurlönd. —

Hitt er annað mál, að það ber brýna nauðsyn til að bæta úr vandræðunum út af skorti á skiftimynt. En með þessu frv. er alls engin bót ráðin á þeim, eins og háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) tók fram. Sú mynt, sem slegin yrði, mundi undir eins streyma út úr landinu, eins og sú, sem fyrir var áður, þegar menn gætu fengið fyrir hana norræna seðla, sem væru í hærra verði en íslenskir. —