16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (1369)

47. mál, myntlög

Flm. (Bjarni Jónsson):

Eins og jeg tók fram áðan, geri jeg ekki að deilumáli till. um sláttu á skiftimynt, en jeg hjelt því fram, að með lögum þessum mætti ná sama tilgangi, því ef þau ná fram að ganga, má slá mynt hjer á landi, en enn sem komið er, er það ekki leyfilegt. Jeg á því bágt með að skilja andmæli gegn frv. mínu.

Hvað það snertir, að settar yrðu skorður við gengismun milli Norðurlanda, þá yrði að breyta löggjöf allra landanna til þess, svo jeg sje ekki, að það geti orðið þessu máli til hindrunar. Það hefði auðvitað mátt koma með frv. um alt aðra mynt, ef ekki stæði svo á, að samkvæmt sambandslögunum erum við í myntsambandi við Danmörku í næstu 20 ár. Samt vildi jeg eigi, að það yrðu dönsk myntlög, sem hjer giltu. —

Mótbárur gegn íslenskri myntsláttu get jeg engar sjeð; hins vegar þætti mjer ekki ótrúlegt, að Íslendingar gætu haft hag af að slá mynt sína sjálfir. — Ættum við fyrst um sinn að koma því fyrir í útlöndum, t. d. Noregi eða Svíþjóð. Mjer er sagt, að Finnar hafi falið Dönum að slá sína mynt fyrir sig, og sje jeg ekkert á móti því, að við förum að þeirra dæmi í því efni.

Jeg læt svo útrætt um þetta mál að sinni, en vona, að háttv. deild vísi frv. til viðskiftamálanefndar.