23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1923

Þorsteinn Jónsson:

Jeg hefi flutt till. á þskj. 131 ásamt háttv. 1. þm. Eyf. (St.St.). Það er till. um að veita Sambandi norðlenskra kvenna 500 kr. styrk til líknarstarfsemi sinnar. Það hefir að vísu sótt um 1000 króna styrk, en ekki fundið náð fyrir augum fjvn. Hún hefir ekki lagt til, að því verði neinn styrkur veittur, og mun það stafa af því, að hún er ókunnug starfsemi sambandsins. Jeg vona nú samt sem áður, að háttv. þingd. samþykki þessa fjárveitingu. Þetta fjelag hefir orðið til mikils gagns og hefir það með höndum að hjúkra fátækum sjúklingum og hjálpa þeim með fje. Einnig hefir það veitt ungum stúlkum styrk til þess að nema hjúkrunarstörf.

Aðalverksvið þess er því hið sama sem hjúkrunarfjelagsins Líknar hjer í Reykjavík, og því ekki ástæða fyrir þingið að gera mikinn mun þessara fjelaga. En auk þess hefir það reynt að útbreiða þekkingu manna og áhuga á garðyrkju í Norðurlandi. Það gefur út tímaritið „Hlín“, sem er mjög gott og fræðandi rit.