25.03.1922
Neðri deild: 32. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (1378)

47. mál, myntlög

Bjarni Jónsson:

Mig furðar á undirtektum þeim, sem þetta mál hefir fengið hjá háttv. nefnd og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.).

Hjer er ekki að ræða um annað en heimildarlög, sem stjórnin á að fara eftir, ef henni þykir þörf á að slá mynt. Stjórninni eru ekki sett nein skilyrði um, hvernig hún skuli semja við Noreg og Svíþjóð, og hefir hún yfirleitt alveg óbundnar hendur þessara laga vegna.

Það er alls ekki ætlast til, að myntin verði slegin hjer heima, sje hægt að fá hana ódýrari annarsstaðar. Jeg veit, að það borgar sig að kaupa málm nú til myntsláttu. og hjer er alls ekki að ræða um kostnað, heldur hagnað. En hvers vegna má ekki setja lög um þetta? Hverjum eru þau til ama?

Jeg get ekki krufið hugi manna, en jeg hygg þó, að að minsta kosti sumum þyki of mikið sjálfstæðisbragð að lögunum. Þeir vilja máske fyrst spyrja Dani; en hjer stendur svo á, að Dani þarf alls ekki að spyrja.

Það er ekki til neins að berja við kostnaði, því hjer er að eins að ræða um, að lögin sjeu til. Af þeim leiðir enga skyldu til að slá mynt, fremur en verkast vill, en í stjórninni eru greindir menn og gætnir, sem munu bera skynbragð á, hvað þjóðinni sje til skaða.

Háttv. frsm. (J. A. J.) sagði, að hv. nefnd hefði haft tal af hæstv. stjórn og hún verið því fylgjandi, að frv. yrði ekki samþykt strax. Furðar það mig mjög, því jeg skil ekki, eftir hverju á að bíða. Meðan Danir eru í myntsambandi við Noreg og Svíþjóð er að eins rökrjett, að við sjeum það líka. Þessi lög þurfa engan frekari undirbúning en þau þegar hafa fengið, og kostnaðurinn kemur þá fyrst til greina, er á að fara að framkvæma lögin. — Það hlýtur því að vera eitthvað annað en hræðsla við kostnað eða undirbúningsleysi, sem veldur því, að menn eru þessu frv. andvígir.