25.03.1922
Neðri deild: 32. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (1380)

47. mál, myntlög

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Jeg ætla aðeins að skjóta inn athugasemd um undirbúning málsins. Hann er í því innifalinn, að áður en lögin geta komist í framkvæmd þarf að liggja fyrir samningur um, hvað myntin eigi að gilda og hvar hún skuli gjaldgeng. —

Viðvíkjandi myntskipuninni, málmblöndun og öllu þvílíku, þarf auðvitað engan undirbúning; um það er nákvæmlega fyrirskipað í núgildandi myntlögum. — En annars virðist mjer ekki bera mikið á milli frv. og hinnar rökstuddu dagskrár. Þetta eru hvort sem er heimildarlög, svo að stjórnin geti tekið að leitast fyrir um sjálfstæða þátttöku í myntsambandi Norðurlanda. En það má nú að vísu gera án þess að frv. sje samþykt, þegar stjórnin veit um vilja þingsins. Framkvæmdir verða því eflaust líkar, hvort sem frv. eða dagskráin verður samþykt.