13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (1398)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Það gladdi mig að heyra, að hæstv. forsrh. (S. E.) tók fram, að hann hefði ekki talað fyrir munn allrar stjórnarinnar er hann talaði áðan. Annars var aðalmergur ræðu hans sami og áður; hann kom ekki með neinar röksemdir, nema þessa Rimmugýgi, sem hann hugðist að keyra í höfuð mjer, er hann var að spá, hvernig mjer mundi verða við, ef frv. kæmi fram um aðskilnað ríkis og kirkju. Hann var að vitna í það, sem fram kom í því máli hjer á þingi fyrir nokkrum árum, en það var sýnilegt, að hann hafði ekki hugmynd um, hvernig það mál var borið fram þá. Þá var ekki að ræða um skilnað ríkis og kirkju, heldur að skjóta því til þjóðarinnar, hvort hún vildi skilnað, og með því greiddi jeg atkvæði. En þótt slíkt hefði nú verið samþykt þá í hendingskasti, þá hefðum við báðir skoðað huga okkar áður en við köstuðum allri prestastjettinni út á gaddinn.

Hann talaði um það, hæstv. forsrh. (S. E.), að hann gæti ekki haldið hjer stórar fjármálaræður, með því að sjer hefði ekki unnist tími til að grafa sig nógu djúpt niður í fjárhaginn. Jeg verð nú að segja, að það þarf ekki mikinn gröft til þess að sjá, hvernig fjárhag vorum er varið. Þar liggja gögn opin fyrir, svo það er á einum hálftíma hægt að átta sig á því, hvernig „status“ ríkisins er. Hæstv. forsrh. (S. E.) hefir bæði heyrt og lesið ræðu hins fráfarandi fjrh. (M. G.), sjeð fjárlagafrv. stjórnarinnar, þar sem klipt er utan af öllum fjárveitingum til verklegra framkvæmda. Vað þarf ekki að grafa djúpt til að sjá þetta Hann kvaðst ekki vita, hvernig tekjur og gjöld ríkisins stæðust á. En jeg veit, að uppi í stjórnarráði liggja reikningar ríkisins frá 1920, svo hæstv. forsrh. (S. E.) hefði getað litið í þá, því að ekki er ástæða til að ætla, að fjárhagur vor hafi batnað síðan. En þetta veit jeg ekki, þetta veit jeg ekki, segir hæstv. forsrh. (S. E.) og þykir það góð afsökun og gild. Hann var þá að tala um að bæta markaðinn. En verslunarástandinu verður nú ekki kipt í lag í einni svipan og með orðum einum, en litlum eða engum tilverknaði. Hann virðist viðurkenna, að embættabákn þessa lands væri mikið. Því þá ekki að leggja hönd á plóginn og draga úr því og fækka óþarfaembættunum? Hjer er ekki farið fram á að kasta manninum út á gaddinn; við meiri hl. nefndarinnar viljum veita honum einhvern styrk um stund. En það sparast fyrir því nokkurt fje. Laun hans munu vera nú um 7 þús., og við mundum geta sparað helming þess. Já, það þýðir ekki fyrir hæstv. forsrh. (S. E.) að hlæja; þeir geta hlegið, sem hafa sparnaðarglamrið á vörunum, en ekki vilja spara í raun og veru. Við erum ekki nein stórþjóð, og okkur munar um, þótt ekki sje meira en þetta. En annars má segja, ef afnema á eitthvert óþarfaembætti, sjerstaklega ef þau eru hjer í Reykjavík, að þá verði eins og stendur í gömlu vísunni:

„Gnístran tanna í glæstri borg,

grátur í Tobbukoti.“

Þá talaði hann (S. E.) um, að kenna þyrfti þjóðinni að spara. En það er einskisvert hjal, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að kenna henni það Þjóðin hefir margar leiðir til að eyða fje sínu, þrátt fyrir öll innflutningshöft og bannlög. Jeg hygg t. d., að sumir Goodtemplarar hafi ekki eytt minna í kaffi og súkkulaði og þvílíkt heldur en þeir menn, sem höfðu það til að fá sjer á pelann öðru hverju. Jeg hygg nú, eftir reynslunni að dæma, að það sje neyðin ein, sem kent getur þjóðinni að spara.

Jeg hefi svo ekki meira um þetta að segja. Jeg vil aðeins leggja áherslu á það, að það er fullkomlega rjettmætt að leggja þetta embætti niður á þessum erfiðu tímum, þar sem það getur ekki talist þjóðarnauðsyn.