23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, fjárlög 1923

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil með nokkrum orðum víkja að háttv. þm. Ak. (M.K.) sjerstaklega viðvíkjandi því, sem hann var að tala um bændurna í Hrunamannahreppi. En þar sem hann hjó til mín, mun jeg eigi nenna að svara, því að það sveið ekki svo sárt, þó að hann hyggi til mín af miklum móði og ásýnd hans líktist krumma.

Jeg get ekki sjeð, að rjett sje að vera að tala í háði um menn, þó að þeir eigi erfitt aðdrátta, eins og þeir bændur, sem búa í þessari sveit; því að það er víst, að þar búa ekki minni fyrirhyggjumenn en annarsstaðar. Og má nefna sem dæmi, að þar var stofnað hið fyrsta rjómabú, og í Gnúpverjahreppi var stofnað hið fyrsta reglubundna búnaðarfjelag hjer á landi árið 1843. Sýnir þetta, að þeir eru ekki minni framfaramenn en aðrir, þrátt fyrir það, þó að þeir þurfi að flytja „trúss á einu merarbaki“, eins og hinn háttv. þm. komst svo vel að orði.

Jeg vildi nú mega spyrja hv. þm. Ak. (M.K.), hvort ekki sje rjett að spara, þó aldrei nema að það sje smjör, og nota annað feitmeti, sem ódýrara er, og selja svo smjörið út úr landinu. Er það ekki framleiðsla? Að minsta kosti fara Danir svo að. Þeir borða smjörlíki, en selja svo aftur sitt smjör út úr landinu, eins og jeg hefi áður tekið fram, en gáfnafar hv. þm. Ak. heimtar að sje ítrekað.

Þá talaði háttv. þm. um það, að láglendingarnir vildu vera ríki í ríkinu. En þeir æskja þess að fá að vera í friði það sem þeir eru, óáreittir af þm. Ak.; enda er það ofætlun fyrir hann að hluta ríkið sundur á einn eða annan veg; hann hefir nógu öðru sundur að hluta. Það er einkennilegt, að þeir Hreppamennirnir, sem sækja um þessa litlu lánsupphæð, og vilja með því gera tilraun um þýðingarmikla framleiðslu, eru hinir sömu, sem á þingmálafundi nú rjett fyrir þingið urðu til þess að mótmæla einróma þeirri vöru, sem háttv. þm. Ak. (M.K.) hefir sjerstaklega á boðstólum, sem sje tóbakinu. Er þingmaðurinn nú máske að jafna þessa skuld við bændurna, með því að spyrna á móti þessari virðingarverðu tilraun þeirra.

Annars er jeg hissa á því, hve þessi litla lánbeiðni bændanna eystra hefir hleypt mikilli ilsku í háttv. þm. Ak. (M.K.).

En jeg get látið hjer staðar numið, enda veit jeg, að sá vinnur fyrir gýg, er vill reyna að sannfæra þennan háttv. þm. með röksemdum, því hafi hann bitið sig í eitthvað, lætur hann aldrei sannfærast, heldur ber hann höfðinu við steininn og endurtekur sín tilvöldu einkunnarorð: „Jeg tek ekkert aftur“.