13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (1400)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Sveinn Ólafsson:

Jeg finn mjer skylt að gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli, því jeg ætla að greiða atkv. með frumvarpinu.

Jeg skal þegar taka það fram, að orð mín má ekki skilja svo, að mjer sje í nokkru í nöp við hv. þm. Dala. (B. J.), sem frv. snertir svo mjög. Þvert á móti vil jeg greiða götu hans og sýna honum allan sóma í þessu. Jeg er samdóma hv. flm. (S. St.) um það, að hann eigi að fá sæmileg biðlaun, að minsta kosti fyrst um sinn, ef embættið fellur niður.

Jeg lít svo á, að það sje rangt að halda því fram, að hjer sje verið að vega að manni þeim, sem starfann hefir. Það er auðsætt, að ef annars á að fækka embættum, verður einhversstaðar að byrja, en það er tilviljun, að þetta embætti varð fyrst fyrir, og óneitanlegt að hægt er án þess að vera.

Sumir hafa haldið því fram, að það sje metnaðarmál fyrir þjóðina að halda þessu embætti framvegis. Jeg tel annað vera meira metnaðarmál. og það er að láta eigi embætti, sem stofnuð eru að lítt hugsuðu máli, fyrir metnaðarsakir eða af tildri, gera okkur ósjálfstæða efnalega. Sjálfstæði landsins er mjer meira metnaðarmál en kennarastólar til málamynda. Það hefir jafnvel verið tekið svo djúpt í árinni að segja, að sómi landsins lægi hjer við, ef embættið væri lagt niður. En liggur ekki sómi landsins við og nauðsyn, að reynt sje að bjarga fjárhag þess, eða að reynt væri fremur að koma upp verkvísindadeild við háskóla vorn en kenslu í klassiskum fræðum? Það er að minni hyggju meira vert; en við höfum ekki treyst okkur til þess enn, fyrir sakir fjárskorts.

Það er að vísu rjett, að saga landsins og tunga verður ekki til hlítar numin án þess að menn stundi fornmálin nokkuð, þar sem margt, sem að þessu lýtur, er ritað á þeim málum. En það er næsta ósennilegt, að þessi málakunnátta legðist niður með öllu, þó að kennarastóllinn væri afnuminn. Það er miklu sennilegra, að þeir, sem vildu stunda þessi mál, gætu fengið tilsögn í þeim annarsstaðar en í háskólanum, og hygg jeg, að langt yrði að bíða þess, að Íslendingar þyrftu að síma „út yfir pollinn“, eins og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hjelt, til þess að fá fræðslu um þessa hluti, eða útleggingar latneskra skjala.

Hitt er ekki ólíklegt, að þessi kennarastóll yrði aftur reistur að nýju, er betur áraði og önnur nauðsynlegri embætti og meira aðkallandi væru komin á við háskólann.

Jeg hefi með þessum orðum gert grein fyrir mínu atkv., og þykir mjer bregða kynlega við, ef þetta frv. verður felt. Virðist mjer þá, að þeir verði sjálfum sjer ósamkvæmir, sem vilja draga saman seglin og fækka miður þörfum embættum, en þá játningu hefir þorri hv. þm. áður gert.