21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (1412)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jón Baldvinsson:

Jeg var einn þeirra manna, sem greiddu atkv. með þessu frv. til 2. umr. Jeg geri það að jafnaði, ef jeg er ekki andvígur stefnum þeim, sem í frv. felast. Því er nú þannig varið hjer, að jeg er samþykkur því að leggja þetta embætti, sem hjer ræðir um, niður, en jeg er hv. nefnd ósammála um það, hvenær niðurlagningin eigi að framkvæmast. Það er ekki langt síðan Alþingi setti lög um stofnun þessa embættis, og þó að sumum kunni nú að finnast, að slíkt hafi verið í flaustri gert, þá álít jeg þó, að þingið verði að taka afleiðingunum, þótt það sjái, að það hafi gert það, sem það ekki átti að gera. Með því að setja mann í fast embætti, hefir ríkið tekist á hendur þá skyldu gagnvart honum, að hann fái að vera í því, meðan hann brýtur ekki af sjer. Þannig er það hjá atvinnurekendum; þeir verða að standa við samninga þá, sem þeir gera við menn sína. Ef einhver hefir ráðið mann til sín til eins eða tveggja ára, en hefir svo ekkert við hann að gera, þá getur hann ekki sagt honum fyrirvaralaust út á gaddinn. Jeg veit, að þessi skylda er stundum brotin af atvinnurekendum, og vil jeg þar til nefna, þegar útgerðarmenn bundu togarana við hafnargarðinn og sögðu við hásetana, sem þeir höfðu ráðið til sín: Nú höfum við ekki meira við ykkur að gera. Þó að þetta baki ekki lagalega ábyrgð, þá er það þó siðferðilegt brot. Eins er það með þetta embætti. Jeg vil ekki, að maðurinn, sem í því er, verði látinn fara úr því fyrirvaralaust; enda er það gagnstætt venju ríkisins. Þá samninga, sem ríkið eða þingið gerir, verður það að halda. Samninga verða menn yfirleitt að standa við, nema sannað sje, að þeim hafi verið þröngvað til þess að gera þá, eða verið viti sínu fjær. En þessu er hvorugu hjer til að dreifa.

Jeg er nú í hjarta mínu sannfærður um það, að komast hefði mátt af án þess að stofna þetta embætti, og snertir það ekki síður embættið í hagnýtri sálarfræði, sem er hjer næst á eftir á dagskránni, og því rjettmætt að leggja það niður. En þar fyrir vil jeg ekki láta kasta þeim manni, sem nú er í embættinu, út á gaddinn. En til þess að orðið geti spámaður úr þessu í framtíðinni, þá hefi jeg borið fram þessa brtt. á þskj. 95. Á þann hátt hygg jeg að þingið geti skilist sómasamlega við þetta mál.

Hv. þm. Mýra. (P. Þ.) hefir nú tekið aftur brtt. á þskj. 94, og tel jeg það vel farið, því að jeg hygg, að mín till. nái betur tilgangi sínum, og vænti jeg þess, að hv. deild samþykki hana.