21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (1420)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Þorleifur Guðmundsson:

Mjer þykir það skrítið, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) segir, að við viljum allir láta þennan háskólakennara hafa biðlaun og eftirlaun, þegar jeg hefi einmitt lýst því yfir, að jeg vilji ekki láta hann hafa neitt. Jeg sagði það um daginn, að úr því að embættið væri óþarft, þá ætti að leggja það niður, og án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Sje það óþarft, þá erum við búnir að borga þessum manni of lengi, og þess vegna væri það rangt að fara þá að borga honum biðlaun eða eftirlaun, þegar loksins við hefðum mannrænu til þess að losast við hann. Þetta tók jeg svo skýrt fram um daginn, að jeg hjelt, að hv. þm. hefðu skilið mig.