30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (1428)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Gagnvart því, sem hæstv. forsrh. (S. E.) tók fram, að nú hefði háskólaráðið birt álit sitt og lagt eindregið á móti, þá verð jeg að segja það, að það er ekki háskólinn nje háskólaráðið, sem leggja út fje það, sem til skólahaldsins þarf, heldur atvinnuvegir landsins. Enda býst jeg við, að annað yrði upp á teningnum, ef þessu yrði skotið til þjóðarinnar. Jeg býst við, að þeir yrðu fáir nú, sem ekki fjellust á, að þetta embætti sje ekki nauðsynlegt. Að embætti þetta var stofnað, stafar af því, að það var metnaðarmál fyrir prestastjett landsins, en eigi af því, að neina sjerstaka nauðsyn bæri til. Get jeg borið vitni um það, að grískukunnátta mín hefir ekki komið mjer að miklu haldi í prestsembættinu, og var þó sú kensla, sem jeg naut, ekki verri en þessi, sem nú er við háskólann. Er jeg þess fullviss, að prestar geta verið jafnuppbyggilegir og góðir kennimenn, þó að þeir þekki ekki einn bókstaf í grísku. Hvað latínuna snertir, þá kemur hún varla til greina, svo lítið sem hún hefir verið kend, síðan embætti þetta var stofnað, enda tel jeg lítil not að einhverju lærdómshrafli í miðaldalatínu.

Læt jeg svo þetta nægja að sinni.